Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meira vont kólesteról í Asíu minna á Vesturlöndum

04.06.2020 - 15:32
Vilmundur Guðnason
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar, segir niðurstöðurnar geta skipt verulegu máli. Mynd: Fréttir
Mun meira finnst af vondu kólesteróli í blóði íbúa Asíu heldur en hjá Vesturlandabúum. Þetta sýna niðurstöður mjög umfangsmikillar rannsóknar sem var birt í nýjasta hefti vísindaritsins Nature. Vilmundur Guðnason prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar segir að Asíubúar hafi tekið upp ósiði Vesturlandabúa. Vonda kólesterólið hefur lækkað mest í Belgíu og á Íslandi.

Rannsókn nær til 200 landa

Nature birti greinina 3. júní. Keyrðar voru saman 1127 rannsóknir á blóðfitu frá 200 löndum og náðu þær til 102,6 milljóna manna eldri en átján ára. Rannsóknirnar ná yfir þrjátíu og átta ár, frá 1980 til 2018. Rannsóknir Hjartaverndar á kólesteróli í blóði eru hluti af heildarrannsókninni. Hjartavernd hefur mælt kólesteról í blóði Íslendinga endurtekið í 50 ár. 

Vilmundur segir að rannsóknirnar séu ekki alveg nákvæmlega eins. Þær byggi þó allar á úrtaki og endurspegli þjóðirnar. „En þegar upp er staðið þá er búið að samræma þær, þannig að þær eru sambærilegar þó þær séu ekki eins.“

Lækkaði næst mest á Íslandi

Niðurstöðurnar sýna að frá árinu 1980 hefur vonda kólesterólið lækkað mest í Belgíu, næst mest á Íslandi en aðrar Norðurlandaþjóðir, Finnland, Noregur, Danmörk og Svíþjóð eru einnig í tíu efstu sætunum. Það hefur hins vegar hækkað í löndum Asíu og við Kyrrahafið, eins og t.d. í Tókelá, Malasíu, Filippseyjum og Tælandi. 

„Það sem vekur mína athygli mest, fyrir utan Ísland sjálft, er þessi mikla aukning í þessu vonda kólesteróli hjá Asíuþjóðum sem þýðir auðvitað bara að þær þjóðir standa frammi fyrir faraldri af ótímabærum dauðsföllum vegna hjartaáfalla með sama hætti og Vesturlönd stóðu frammi fyrir á 5. og 6. áratug síðustu aldar.“   

Farnir að borða McDonalds

Talið er að árið 2017 hafi þrjár komma níu milljónir manna látist vegna þessa og er um helmingur þeirra í Asíu. 

Vilmundur segir að á sínum tíma hafi menn farið að kanna orsakir ótímabærra dauðsfalla vegna hjartaáfalla á Íslandi. Í ljós hafi komið að helstu áhættuþættirnir voru hátt kólesteról, reykingar og hár blóðþrýstingur.   

„Manneldisráð var stofnað og mikill áróður var fyrir breyttum lífsstíl. Og eins og menn vita þá fækkaði dauðsföllum vegna ótímabærra hjartaáfalla um 80 prósent frá 1981 til 2006. Og við fundum út að það mætti rekja um 70 % af því til breytinga í lífsstíl.“
 
Í greininni í Nature er tekið fram að breytingar á mataræði hafi haft veruleg áhrif, sérstaklega þegar skipt var út mettaðri fitu fyrir ómettaða og þegar dregið var úr neyslu á transfitu. Eitthvað annað virðist vera að gerast í Asíu.   

„Þeir eru bara að taka upp ósiði þá sem við vorum með á síðustu öld. Það er eiginlega ekki hægt að skýra það með neinum öðrum hætti. Bara farnir að borða McDonalds.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV