Má ekki setja forseta í spennitreyju

Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Guðni Th. Jóhannsson, forseti Íslands, segir að ekki megi láta forseta í spennitreyju þar sem ráðrúm til að hafa áhrif á embættið sé lítið sem ekkert. Hann segir að íhuga eigi alvarlega að setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimili þjóðaratkvæði um lög Alþingis, fari tiltekinn fjöldi kjósenda fram á það. Rúmar þrjár vikur eru þar til forsetakosningar fara fram.

Guðni Th. Jóhannesson mætti í Spegilinn í tilefni forsetakosninga í lok mánaðarins. Hann segir að hann sinni kosningabaráttu samhliða því sem hann gegni embættisstörfum.

„Með góðri skipulagningu og hjálp góðs fólks er hægt að koma þessu tvennu í kring. Forseti hefur skyldum að gegna hvern dag og sú skylda er í forgrunni. Svo er það að sjálfsögðu mitt hlutverk sem frambjóðanda að taka þátt í viðburðum sem lúta að því,“ segir Guðni.

Ekki erfið ákvörðun

Hann segir aðspurður að það hafi ekki vafist fyrir honum að gefa kost á sér til endurkjörs. Hann sé að ljúka fyrsta kjörtímabili og get seint talist þaulsetinn í embættinu.

„Ég finn og hef fundið undanfarin ár að ég hef blessunarlega notið velvildar, hlýhugar og stuðnings. Þetta er annasamur starfi. Það vita allir að ég held. Hvern dag finn ég hve einstakur heiður það er að gegna embætti forseta Íslands. Þeim heiðri fylgir ábyrgð og jafnvel kvöð stundum. Ég skal ekkert gera lítið úr því að stundum eru annirnar miklar. Og hver veit nema að maður hugsi þá innst inni, ja, það væri nú notalegt að vera aftur í skjóli fræðanna og þess heims sem ég naut mín svo vel í. En þær stundir eru miklu færri en gleðistundirnar yfir því að geta sinnt þessu embætti eftir bestu samvisku og bestu getu. Og ég finn meðal fólks að því er vel tekið,“ segir Guðni. Ákvörðun sem hann tilkynnti um áramót að hann sæktist eftir endurkjöri hafi því ekki verið erfið.

Verður að vera ákveðinn sveigjanleiki

Guðni var spurður að því hvort að það vantaði ekki hreinlega starfslýsingu á hlutverki og störfum forseta. Þó að embættið sé komið á áttræðisaldur virðist ekki vera samkomulag um hvernig eigi að sinna því. Staðreyndin er sú að hver forseti hefur að einhverju leyti mótað embættið eftir sínu höfði. Guðni segir það rétt að sá eða sú sem gegnir embætti forseta Íslands móti það eftir sínu höfði en að sjálfsögðu innan þess ramma sem stjórnskipunin veitir og jafnframt í ljósi tíðaranda að einhverju leyti.

„Það verður að vera ákveðinn sveigjanleiki. Forseta má ekki láta í spennitreyju þar sem ráðrúm til að hafa áhrif á embættið er lítið sem ekkert. Vandi okkar felst að nokkru leyti í því að ákvæði um forseta í stjórnarskrá bera enn þá mjög sterkan keim af því að þau voru sett þegar þjóðhöfðingi var valdamikill konungur í fjarlægu landi,“ segir Guðni. Þetta hafi legið fyrir frá lýðveldisstofnun. Ríkur skilningur hafi verið að við fyrsta hentugleika yrði ráðist í endurskoðun stjórnarskrárinnar og ekki síst kaflans um forsetann.

Tilefnið verði alltaf að vera ríkt

Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, sagði í Speglinum í gær að Guðni hefði í raun fært embættið til svipaðs horfs og það var áður en Ólafur Ragnar Grímsson, þáverandi forseti, beitti fyrst málskotsréttinum. Guðni var spurður hvort þetta þýddi að hann stæði fyrir gamaldags og íhaldssöm viðhorf í tengslum við forsetaembættið. Guðni segir að hann myndi ekki orða það þannig og allt verði að skoða í samhengi. Hann segir að vissulega sé það rétt að í embættistíð Ólafs hafi embættið þróast áfram. Flestir horfa til þess að hann var fyrstur til að synja lögum staðfestingar. Hann bendir á að Ólafur hafi gegnt embættinu í 20 ár og hann hafi þrisvar sinnum nýtt þennan rétt, í fyrsta sinn þegar hann hafði setið sem forseti í átta ár. Guðni segir að tilefnið verði alltaf að vera ríkt.

„Þannig að hið nýja inntak embættisins, eða þessi viðbót Ólafs Ragnars um að nýta synjunarvaldið fyrstur forseta, ber að skoða í því ljósi að ekki voru hér þjóðaratkvæðagreiðslur frá degi til dags,“ segir Guðni. Hann bendir að mörg dæmi hafi verið um að forseta hafi þá borist áskoranir en hann hafi ekki orðið við þeim að vel athuguðu máli.

„Og oftar en ekki vegna þess að áskoranirnar voru ekki nægilega margar að mati forseta. Þannig að nú er staðan ekki sú að horfið sé til fyrri tíma þar sem aldrei eða nær aldrei þótti koma til álykta að beita synjunarvaldi. Heldur er staðan söm sem fyrr að komi á daginn að forseta berist tugþúsundir áskorana um að synja lögum staðfestingar, þá er sama staðan sem fyrr að það verður tekið til alvarlegrar athugunar en þær verða að vera margar,“ segir Guðni.

Íhuga ætti þjóðaratkvæði um lög Alþingis

 Hann segir að það eigi ekki að negla niður fjöldann. „Við ættum að íhuga alvarlega að setja í stjórnarskrá ákvæði sem heimilar þjóðaratkvæði um lög Alþingis, fari tiltekinn fjöldi kjósenda fram á það. Þá erum við að koma í veg fyrir að geðþótti þjóðhöfðingjans eins ráði,“ segir Guðni.

En hefur hvarflað að Guðna að beita málskotsréttinum? Hann bendir á að tvisvar í hans forsetatíð hafi þúsundum undirskrifta verið safnað vegna laga Alþingis. Fyrst vegna samþykkar búvörusamningsins 2016. Þá hafi undirskriftirnar verið um 5 þúsund. Síðastliðið haust hafi honum verið afhentar rúmlega 7 þúsund undirskriftir vegna þriðja orkupakkans. Í báðum þessum tilfellum hafi verið um 3% kjósenda að ræða.

„Þegar mér berast áskoranir þá tek ég á móti þeim í fullri vinsemd og íhuga mitt ráð. En hugsið ykkur ef við hefðum þjóðaratkvæðagreiðslur vegna kröfu innan við þriggja prósenta kjósenda þá værum við að færast inn í allt aðra stjórnskipun en við höfum vanist,“ segir Guðni. Hann rifjar upp að í tíð forvera hans hafi ekki verið orðið við fjölmörgum áskorunum. Hann nefndir öryrkjalög, Kárahnjúkavirkjun, Icesave 1 og lög um veiðigjald. „Það er ekki svo að í hvert einasta skipti sem forverum mínum bárust áskoranir hafi verið gengið til þjóðaratkvæðis. Þetta verður fólk að hafa í huga,“ segir Guðni. Hann segir að synjunarvaldið sé vissulega ákveðið verkfæri af valdi forseta. Það sé hins vegar alls ekki það sem lúti að störfum forseta frá degi til dags.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi