Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lögreglan komið með ábendingar varðandi göngugöturnar

Mynd: RÚV/Freyr Arnarson / RÚV/Freyr Arnarson
Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að Reykjavíkurborg hafi gert allt lagalega rétt þegar hluti gatna í miðborginni var breytt í göngugötur í vor, en skiltin mættu vera meira áberandi.

Ekki má lengur loka götunum vegna ákvæði í umferðarlögum sem heimilar meðal annars akstur fyrir fatlaða, en töluverður misbrestur er á því að ökumenn virði skiltin um göngugötur og lítið hefur dregið úr umferð um þær.

„Ég er búinn að fara í tvígang niður á Laugaveg og skoða merkingarnar. Þær eru eftir formreglu reglugerðar um umferðarmerki, en það eru hnökrar. Þetta er merki sem eru hátt uppi, það mætti lækka þau, og við erum búin að koma okkar ábendingum á framfæri við borgina,“ sagði Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í Morgunútvarpinu á Rás tvö í morgun.

Hann segir það ekki rétt sem fram kom á Twitter-síðu lögreglunnar á dögunum að hún geti ekki sektað fyrir brot af þessu tagi. Hann ítrekar að ekki sé hægt að vakta öll brot hjá ökumönnum.

„Það er engin gata sem getur fengið 24 tíma eftirlit hjá lögreglu. Það er ekki inni í myndinni. Ef svo væri þá værum við að búa í lögregluríki og það vill enginn,“ sagði Árni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri.