Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lilja fór gegn tillögu um formann fjölmiðlanefndar

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra fór gegn tillögu sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu þegar hún skipaði Einar Huga Bjarnason sem formann fjölmiðlanefndar í nóvember. Samkvæmt minnisblaði til ráðherra var mælt með því að skipa sem formann, konu sem er einn helsti sérfræðingur í fjölmiðlarétti í landinu. Lilja valdi þess í stað karl sem hefur litla sem enga reynslu á sviðinu - en hefur setið í minnst átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins. 

Einar Hugi Bjarnason var formaður hæfnisnefndar um mat á umsækjendum um embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins en Lilja braut jafnréttislög með því að skipa flokksbróður sinn, Pál Magnússon, í embættið. Umboðsmaður Alþingis hefur nú skipanina til athugunar.

Sagt var frá því í fréttum RÚV í gærkvöld að Einar Hugi hefur setið í minnst átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins. Ein þeirra er fjölmiðlanefnd, sem er sjálfstæð nefnd sem heyrir undir menntamálaráðherra, en í hana er skipað til fjögurra ára í senn. 

Skipunartími síðustu nefndar rann út í ágústlok í fyrra. Um það leyti lögðu sérfræðingar í menntamálaráðuneytinu til í minnisblaði til ráðherra að Halldóra Þorsteinsdóttir, lektor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og einn helsti sérfræðingur landsins í fjölmiðlarétti, yrði skipuð formaður. 

Halldóra hafði áður átt sæti í fjölmiðlanefnd og gegnt þar varaformennsku. Halldóru var í ágúst tilkynnt um fyrirhugaða skipan hennar sem formanns nefndarinnar. Það dróst þó á langinn að hún fengi sent skipunarbréf frá ráðherra og fékk hún loks símtal frá starfsmanni ráðuneytisins um að Lilja vildi skipa Einar Huga. Þetta staðfestir Halldóra í samtali við fréttastofu. 

Fjölmiðlalög krefjast sérþekkingar nefndarmanna

Tveimur mánuðum eftir að minnisblaðið kom inn á borð Lilju tilkynnti hún um skipun Einars Huga í stöðu formanns fjölmiðlanefndar. Ákvörðun ráðherra vakti athygli því Einar Hugi hefur litla sem enga reynslu á sviði fjölmiðlaréttar en í fjölmiðlalögum er gerð krafa um slíkt. Auk þess hafi þegar verið tilnefnd ein kona og tveir karlar og með skipan Halldóru í formennsku hefði Lilja rétt kynjahallann líkt og henni ber að gera samkvæmt jafnréttislögum.

Lilja hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal.