Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Hafa áhyggjur vegna opnunar landamæranna

04.06.2020 - 20:29
Mynd með færslu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, var gestur Kastljóssins í kvöld. Mynd: RÚV
Páll Matthíasson, forstjóri Landpítala, segir að í áhættumati spítalans vegna fyrirhugaðrar opnunar landamæranna 15. júní, hafi komið fram ákveðnar áhyggjur. Vilji þurfi að vera til að breyta þeim áætlunum, ef þörf krefji. Starfsfólk spítalans sé langþreytt eftir mikið álag í tengslum við COVID-19 faraldurinn og ekkert megi út af bregða. 

Páll var gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi í kvöld. Þar sagði hann að það væri til þess bærra aðila að taka ákvörðun um opnun landamæranna og að nálgast þyrfti verkefnið með tilteknu lærdómshugarfari þannig að læra mætti af því og taka tillit til gagna. Jóhanna Vigdís spurði Pál hvort forsvarsmenn Landspítala myndu vilja fresta opnun landamæranna um nokkrar vikur, jafnvel fram á haust. „Það er búið að taka ákvörðun og við virðum það,“ sagði Páll. Hann sagðist vilja benda á áhættuþætti, til dæmis tæki tíma að gíra upp viðbrögð veirurannsóknarstofu þannig að hún gæti sinnt þeim verkefnum sem hún ætti að sinna.

Hér má sjá Kastljóssþátt kvöldsins

Páll nefndi í þessu sambandi það álag, sem verið hefur á starfsfólk spítalans. 

„Við höfum áhyggjur af því að  fólkið okkar er þreytt. Ef smit blossar upp á ný gæti það valdið ákveðnum vanda því spítalinn er þynnra mannaður yfir sumarið.“

Hef fulla trú á að þetta verði gert af viti og skynsemi

Spurður hvort hann teldi þá að æskilegt væri að opna landamærin seinna sagði Páll svo vera. „Okkar áhættumat er að það er ákveðin áhætta sem fylgir því að opna í sumar . En heildarmatið sem var  tekið af sóttvarnalækni sem við treystum var að það væri rétt að opna á þessum tíma. Ég hef fulla trú að þetta verði gert af viti og skynsemi,“ sagði Páll. Spurður um hvort hann væri sammála þeim sjónarmiðum um að skimun í Keflavík myndi þjóna takmörkuðum tilgangi og í hvaða stöðu Landspítali yrði ef smit myndi greinast þar  svaraði Páll að það, að einhver myndi greinast á landmærunum kallaði ekki á sérstakar ráðstafanir af hálfu Landspítala.

„En um leið og einhver COVID-veikur þyrfti innlögn, þá yrði að fara með spítalann af óvissustigi, þar sem hann er nú, og upp á hættustig aftur. 

Um að ræða „einhverja milljarða“

Jóhanna Vigdís spurði Pál um hvort spítalinn gæti að óbreyttu sinnt þessu verkefni og hver fjárþörfin væri. Hann sagði að gert hefði verið kostnaðarmat á uppfærslu rannsóknarstofu og það væri um 200 milljónir. Kostnaður við COVID-viðbragðið næmi hundruðum milljóna innanhúss.

Hann sagði að erfitt væri að átta sig á kostnaðinum;  hann væri bæði beinn og óbeinn. „ Ég treysti mér ekki til að svara þessu með óyggjandi hætti. Áður en farsóttin kom til, vorum við í erfiðum hagræðingaraðgerðum og þær bíða enn.“

Um væri að ræða „einhverja milljarða.“ En verkefnið til lengri tíma er að það þarf meira fé í heilbrigðisþjónustuna,“ sagði Páll.

Bráðaverkefnið er að semja

Atkvæðagreiðslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um verkfallsboðun lýkur á morgun, verði hún samþykkt skellur á verkfall 22. júní, viku eftir opnun landamæranna. Páll sagði stöðuna grafalvarlega og sagðist  biðla til samningsaðila um að vinna að lausn.

„Bráðaverkefnið núna er að ganga í að semja,“ sagði Páll.