Grunsemdir vöknuðu þegar systurnar fengu lögráðamann

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Grunsemdir um meiriháttar fjárdrátt í máli tveggja heilabilaðra systra vöknuðu þegar þeim var skipaður lögráðamaður fyrir þremur árum. Lögráðamennirnir fóru þá að fara yfir bankareikninga systranna og lögðu í framhaldinu fram kæru til embættis héraðssaksóknara. „Ættingjar þeirra höfðu einhverjar grunsemdir um að ekki væri allt með felldu,“ segir lögráðamaður yngri systurinnar.

Fréttastofa greindi frá því í hádeginu að kona á sextugsaldri hefði verið ákærð fyrir fjárdrátt og gripdeild. Brotin eru í ákærunni sögð nema tæpum áttatíu milljónum og krefst saksóknari upptöku á húsi konunnar og eiginmanns hennar, lúxusjeppa og nokkrum listaverkum sem þau keyptu fyrir peningana. 

Lögráðamenn skipaðir 2017

Konunni er einnig gefið að sök að hafa fengið aðra systurina til að útbúa sameiginlega erfðaskrá fyrir sig og systur sína. Samkvæmt henni átti konan að erfa allar eignir systranna, meðal annars fjórir íbúðir, innbú og allt lausafé að undanskilinni einni milljón.  Systurnar höfðu áður búið til aðra erfðaskrá þar sem þær vildu láta eignir sínar renna í minningarsjóð sem átti að styrkja unga listamenn.

Sigurður Jónsson, lögráðamaður, yngri systurinnar, segir í samtali við fréttastofu að hann hafi verið skipaður árið 2017. Ættingjar systranna töldu þá að þær væru ekki færar að sjá um sín mál.

Hann ásamt lögráðamanni eldri systurinnar fóru í framhaldinu yfir reikninga og bókhald systranna og við það kom ýmislegt í ljós.  „Konan hafði að okkar mati misnotað sér aðstöðu sína,“ segir Sigurður.  Því var lögð fram kæra til embættis héraðssaksóknara og afrakstur þeirrar rannsóknar er ákæran sem verður þingfest í næstu viku. Lögráðamaður eldri systurinnar vildi ekki veita fréttastofu viðtal.

Upphafleg bótakrafa nam nærri 100 milljónum

Fram kemur í ákæru héraðssaksóknara að í kærunni til héraðssaksóknara hafi upphafleg bótakrafa numið nærri hundrað milljónum.

Í ákærunni kemur nokkrum sinnum fram að systurnar hafi verið nánar og að þær  höfðu sterk tengsl við Bandaríkin. Eldri systirin vann í bandaríska sendiráðinu um langt skeið en sú yngri hjá Alþjóðabankanum í Washington.  Þær eru báðar á tíræðisaldri, giftust aldrei og eiga engin börn.

Systurnar keyptu saman fimm íbúðir á efstu hæð fjölbýlishúss í Reykjavík. Sú eldri fékk þar umboð frá yngri systur sinni til að ganga frá kaupunum og sá síðan um að greiða fyrir hana reikninga, meðal annars fasteignagjöld og annað sem tengdist íbúðinni.

Dóttir konunnar baðst undan vitnaskyldu

Eftir að yngri systirin fluttist heim og var lögð inn á spítala sá eldri systirin um fjármál hennar þar til konan, sem nú hefur verið ákærð, tók það verkefni að sér.

Aðdragandinn að þessu er rakin í ákæru saksóknara.  Fram kemur að konan hafi fengið umboð í febrúar 2012. frá eldri systurinni til að aðstoða hana við fjármál. Samkvæmt því var við það tilefni einnig framselt umboðið vegna fjármála yngri systurinnar.

Framsalið virðist þó ekki hafa verið fullnægjandi því tæpum tveimur mánuðum síðar veitti yngri systirin konunni samhljóða umboð og systir hennar hafði skrifað undir. 

Saksóknari segir ekki vitað hvar né hvenær yngri systirin skrifaði undir skjalið. Dóttir konunnar, sem var vottur að réttri dagsetningu, undirritun og fjárforræði, baðst undan vitnaskyldu. Eiginmaður konunnar kvaðst við rannsókn málsins ekki muna hvernig þetta fór fram. 

Í ákærunni kemur fram að þegar rannsakendur reyndu að taka skýrslur af systrunum fyrir þremur árum hafi það ekki reynst hægt vegna veikinda þeirra.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi