Glímir enn við eftirköst heilahristings

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Glímir enn við eftirköst heilahristings

04.06.2020 - 20:22
Andri Adolphsson leikmaður Vals í knattspyrnu glímir enn við afleiðingar höfuðhöggs sem hann hlaut í leik með liði sínu. Meiðslin og afleiðingar þeirra komu ekki strax í ljós í tilfelli Andra.

 

Andri, sem er 27 ára, fékk höfuðhögg í leik Vals við ÍBV í febrúar. Meiðslin litu ekki illa út í fyrstu og eftir að sjúkraþjálfari hafði litið á hann hélt hann áfram að spila.

„Við förum þarna upp í skallabolta tveir og ég veit ekki hvort hann skalli mig í hnakkann eða hvort ég fái olnboga eða hvað. En ég fer svo út og fæ allar þessar klassísku spurninga eins og hvað ég sæi marga putta og annað. Mér leið þannig séð ekkert illa þá,“ sagði Andri í samtali við RÚV á Hlíðarenda í dag.

Daginn eftir hafi einkenni þó farið að gera vart við sig. 
 
„Ég vaknaði daginn eftir og var alveg bilað slæmur, sérstaklega í hálsinum. Daginn eftir það mæti ég svo til vinnu og byrja að lesa af skjánum og sé allt frekar óskýrt. Þá áttaði ég mig á því að kannski væri ekki all með felldu.“

Þá leitaði Andri til sjúkraþjálfara og lækna. Hann þurfti að minnka verulega við sig vinnu og hætta að æfa. Fyrir tveimur vikum síðan leið Andra eins og hann væri að ná bata. En þá kom bakslag í endurhæfinguna og sjóntruflanirnar fóru að aukast á ný. 

„Ég var búinn að ná þremur góðum dögum og fannst ég vera að ná bata en svo kom bakslag og ég fann aftur til. Núna er ég bara í 50% vinnu og æfi voðalega lítið hér,“ segir Andri og segir jafnframt að þátttaka hans í byrjun móts verði í takmörkuðu magni en hann stefnir á að ná seinni umferðinni.

Nánar er rætt við Andra í spilaranum hér fyrir ofan.