ESB leggst gegn endurgreiðslu með inneignarnótum

04.06.2020 - 06:24
Mynd með færslu
Flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er meira og minna mannlaus þessa dagana. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Evrópusambandið hefur bent á að dönskum ferðaþjónustufyrirtækjum sé óheimilt að endurgreiða viðskiptavinum ferðir, sem féllu niður vegna kórónuveirufaraldursins, í formi inneignar. Frumvarp um slíkt hefur verið lagt fram á Alþingi.

Í umfjöllun danska ríkisútvarpsins segir að danska þingið hafi rætt möguleikann að ferðaþjónustufyrirtæki geti endurgreitt ferðir í formi inneignarnótum sem gildi í ýmist 12 eða 18 mánuði. Ef inneignin var ekki notuð gæti fólk fengið endurgreitt að þeim tíma loknum, en slíkt átti að hjálpa til varðandi lausafjárvanda fyrirtækjanna. 

Danir lögðu þetta fyrir Evrópuþingið, sem hefur nú lagst gegn þessu og ítrekar í ályktun að viðskiptavinir eigi rétt á að fá greiðsluna sjálfa endurgreidda ef ferðir eru ekki farnar. 

Frumvarp ríkisstjórnarinnar harðlega gagnrýnt

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, lagði fram frumvarp í apríl þar sem gert er ráð fyrir að ferðaskrifstofum verði heimilt að endurgreiða með inneignarnótum. Það var hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19.

Áformin hafa fallið í grýttan jarðveg. Neytendasamtökin hafa til að mynda lagst hart gegn þeim áformum og telja ekki boðlegt að lausafjárvandi fyrirtækja sé velt yfir á neytendur.

Þá sagði Vilhjálmur Þ.Á. Vilhjálmsson, hæstaréttarlögmaður, að frumvarpið væri brot á eignaréttarákvæðum stjórnarskrár. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir í Fréttablaðinu í dag að ályktun Evrópuþingsins hljóti að vera síðasti naglinn í kistu frumvarpsins,  sem hefur verið á borði atvinnuveganefndar Alþingis frá 22. apríl eftir fyrstu umræðu í þingsal.

Uppfært klukkan 18:06 - Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að Evrópuþingið hafi úrskurðað um að áform danskra stjórnvalda væru óheimil. Hið rétta er að aðeins um einskonar leiðbeiningar er að ræða, en ekki formlegan úrskurð.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi