Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfið kolmunnavertíð senn á enda

04.06.2020 - 13:38
Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Ársælsson
Íslensku uppsjávarskipin eru nú flest að hætta kolmunnaveiðum og erfið vertíð því senn á enda. Makrílveiðar eru næsta verkefni og líklegt að einhverjar útgerðir sendi skip á makríl strax eftir sjómannadag.

Enn eru rúm 74 þúsund tonn eftir af kolmunnakvóta fiskveiðiársins og margar útgerðir sem eiga skip á kolmunnaveiðum eiga því enn talsvert óveitt af útgefnum kvóta.

Kraftlítil kolmunnavertíð

Vertíðin hefur ekki verið sem best, bæði erfitt veður og veiðin ekki eins góð og menn hefðu viljað. „Það er búið að vera vont veður eiginlega síðan í haust, meira og minna, og skipin lítið getað verið að,“ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðastjóri Eskju. „Svo byrjaði færeyjavertíðin ekki með nógu miklum krafti. Hún byrjaði bæði seinna og ekki með eins miklum krafti og við erum vanir.“

„Komið lokahljóð í menn“

Það er því komið lokahljóð í menn, eins og Baldur orðar það, og margir að hætta. En það sé hugsanlegt að þeir nái einhverjum dögum í viðbót og það sem eftir verður af kvótanum geti þeir nýtt í haust eða vetur. „Ef veðrið er með okkur þá getum við gert ágætis hluti svona í nóvember, desember. Fram að jólum.“

Makrílveiðar taka við eftir kolmunnavertíð

Makrílveiðar taka við eftir frekar endasleppa kolmunnavertíð og hefjast fyrr en venjulega. Skip Eskju fara á makríl upp úr næstu mánaðamótum, en einhverjar útgerðir ætla að byrja fyrr. Og Baldur segir mjög mikilvægt að ná góðri makrílvertíð eftir loðnubrest tvö ár í röð. „Það skiptir náttúrulega öllu máli núna, þar sem loðnuvertíðin var ekki, að við náum þessum kvóta sem búið er að gefa út. Það er náttúrulenga lykilatriði hjá okkur, makríllinn er gríðarlega mikilvægur.“