Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Björn Ingi, Arnar og Steinn sýknaðir af milljóna kröfu

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Páll Gunnarsson - RÚV
Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað Björn Inga Hrafnsson, Arnar Ægisson og Stein Kára Ragnarsson af kröfu Íslandsbanka um að þeir greiddu bankanum tíu milljónir, auk dráttarvaxta, vegna ábyrgðar þeirra á skuldum DV við bankann. Að auki ber bankanum að greiða hverjum þeirra 600.000 krónur í málskostnað.

Árið 2015 undirrituðu þremenningarnir yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð á hámarki tíu milljónir hjá Íslandsbanka auk verðbóta, vaxta og annars kostnaðar sem DV ehf, sem þeir áttu á þeim tíma, hafði gengist undir eða myndi gangast undir hjá bankanum. Sama dag felldi Íslandsbanki niður eldri ábyrgðir fyrir skuldum og fjárskuldbindingum DV ehf.

Rúmum tveimur árum síðar var útgáfuréttur DV ehf. seldur Frjálsri fjölmiðlun og átti meðal annars að greiða fyrir kaupin með yfirtöku skuldar DV ehf. við Íslandsbanka sem þá nam 18 milljónum. Nokkru síðar lýsti Steinn Kári yfir uppsögn á ábyrgðaryfirlýsingu sinni þar sem búið væri að greiða skuld DV ehf. við Íslandsbanka, en honum skildist að ábyrgðin væri enn lifandi hjá bankanum. Bankinn svaraði því til að enn sæti eftir húsaleiguábyrgð upp á 1,5 milljónir og því væri ekki hægt að fella ábyrgðirnar niður. Í dómsorði segir að ekki sé ágreiningur um að Steinn Kári hafi sagt ábyrgðinni upp.

Sýknaðir á grundvelli þess að skuldin var uppgreidd

Krafa bankans byggir meðal annars á því að nýir eigendur DV ehf. hafi hvorki samþykkt nýja sjálfskuldarábyrgð né samþykkt yfirtöku skuldarinnar samkvæmt kaupsamningnum. Nýju eigendurnir hafi greitt upp skuldina án vitundar eða samþykkis bankans, en skuldin sem þremenningarnir áttu að tryggja sé enn ógreidd og þar sem ábyrgðaryfirlýsingin sé enn í gildi, beri þeim að greiða skuldina.

Í dómsorði segir meðal annars að stefndu verði sýknaðir á grundvelli þess að skuldin hafi verið uppgreidd og ábyrgðaryfirlýsingin þar með fallið úr gildi þar sem engar frekari skuldir hafi verið af hálfu DV ehf. við bankann, sem ábyrgðin átti að tryggja.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir