Bandaríski sjóðurinn minnkar enn frekar við sig

04.06.2020 - 15:32
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Lífeyrissjóður verslunarmanna er orðinn stærsti hluthafinn í Icelandair eftir að bandaríski sjóðurinn PAR Captial Management minnkaði eignarhlut sinn í félaginu.

PAR Capital keypti 11,5 prósenta hlut í Icelandair í apríl í fyrra fyrir rúmlega 5,6 milljarða króna. PAR bætti við hlut sinn nokkru síðar og átti þegar mest var 13,7 prósenta hlut í flugfélaginu.

Samkvæmt nýjum hluthafalista sem Icelandair birti í dag er hlutur PAR nú kominn niður í 11,75 prósent. Það þýðir að Lífeyrissjóður verslunarmanna heldur nú á stærsta hlutnum, 11,81 prósent.

PAR Capital er fjárfestingasjóður með höfuðstöðvar í Boston í Bandaríkjunum. Sjóðurinn er umsvifamikill í fluggeiranum og á meðal annars hlut í United Airlines. Raunar hefur sjóðurinn minnkað eignarhlut sinn þar líkt og í Icelandair, en í fyrra átti hann rúmlega 5 prósenta hlut í United Airlines en á nú 2,75 prósent.

Sjóðurinn á einnig hluti í bókunarsíðunni Expedia og Jetblue flugfélaginu.  Hlutabréf í öllum þessum félögum hafa tekið lækkað nokkuð frá því Covid-19 faraldurinn breiddist út um heiminn.

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi