Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aurskriða hrifsaði átta hús með sér í Noregi

04.06.2020 - 07:07
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot
Einum var bjargað eftir að gríðarstór aurskriða féll í Alta í norður Noregi í gær. Skriðan var 650 metra breið og hrifsaði með sér átta hús á leið sinni til sjávar þegar jarðvegurinn hreinlega gaf sig undan þeim. Myndskeið af hamförunum sýnir greinilega eyðilegginguna.

Tilkynning um skriðuna barst laust eftir klukkan fjögur síðdegis í gær og björgunaraðgerðum lauk um klukkan sjö. Þá var búið að ganga úr skugga um að allir væru heilir á húfi, en flest húsin eru sumarleyfishús og því voru fáir íbúar á svæðinu að því er segir í umfjöllun NRK. Einum var komið í öruggt skjól, en húsið hans fór þó ekki með skriðunni.

Talið er að jarðvegurinn á svæðinu verði áfram óstöðugur næstu daga og vegir verða lokaðir fram eftir degi í dag. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV