Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Árásin beindist ekki sérstaklega að RB

04.06.2020 - 16:59
epaselect epa05960672 A programer shows a sample of decrypting source code in Taipei, Taiwan, 13 May, 2017. According to news reports, a 'WannaCry' ransomware cyber attack hits thousands of computers in 99 countries encrypting files from
 Mynd: EPA
Tilraun til innbrots í tölvukerfi Reiknistofu bankanna virðist ekki hafa verið beint sérstaklega að fyrirtækinu. Fleiri fyrirtæki urðu fyrir sömu árás. Þetta segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri RB í samtali við Fréttastofu.

Reynt var að brjótast inn í tölvukerfi fyrirtækisins seint í gærkvöld. Viðbragðsáætlun var virkjuð í morgun og þjónusturof varð klukkan 13:07 í dag. Truflanir urðu í starfsemi netbanka og debetkorta vegna þessa milli klukkan eitt og tvö og raðir mynduðust á afgreiðslukössum verslana. 

Ragnhildur segir að tilraunir til þess að brjótast inn í tölvukerfi séu algengar og að í dag búi flest fyrirtæki við stöðugar árásir. Þetta sé því ekki fyrsta tilraun til innbrots inn í kerfi Reiknistofu bankanna. Hún staðfestir að árásin hafi komið erlendis frá.  

Tölvukerfi Reiknistofu bankanna hýsa mikið magn viðkvæmra upplýsinga. Aðspurð um hvort þessar upplýsingar hafi verið í hættu segir Ragnheiður að svo hafi ekki verið. Hún staðhæfir að varnir kerfins séu sterkar og að þrjótarnir hafi aðeins komist inn í ysta lag þess. 

Í tilkynningu frá RB sem barst nú á fimmta tímanum segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi orðið varir við óeðlilega umferð í ytra netlagi fyrirtækisins seint í gærkvöld. Frekari greining leiddi í ljós að tölvuþrjótar hafi verið að verki og náð að brjótast inn í ysta lag kerfisins.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV