Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákærð fyrir að rýja systur með heilabilun inn að skinni

04.06.2020 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Kona á sextugsaldri hefur verið ákærð fyrir að féfletta tvær systur á tíræðisaldri sem báðar eru með heilabilun. Eiginmaður konunnar er ákærður fyrir að hafa tekið við, geymt og nýtt ávinning af brotum konu sinnar. Heildarfjárhæðin nemur nærri áttatíu milljónum króna. Saksóknari gerir meðal annars kröfu um að húseign hjónanna , Audi Q7-jeppi og listmunir eftir Ásmund Sveinsson, Jóhannes Kjarval og Einar Jónsson verði gerðir upptækir.

Ákæran verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku.  Hún er mjög umfangsmikil þar sem saga systranna er rakin í henni, veikindi þeirra og samskipti við konuna.

Rak heimilið fyrir pening annarrar systurinnar

Konan er meðal annars ákærð fyrir að fá aðra systurina til að útbúa sameiginlega erfðaskrá fyrir sig og systur sína. Erfðaskráin var undirrituð í maí fyrir sjö árum og fól í sér að konan skyldi erfa allar eignir systranna, meðal annars fjórar íbúðir, innbú og lausafé að frátalinni einni milljón króna.  

Konan er einnig ákærð fyrir fjárdrátt. Hún er sögð hafa misnotað aðstöðu sína og dregið sér í 2.166 tilvikum rúmar 23 milljónir af reikningi yngri systurinnar yfir fimm ára tímabil - frá 2012 til 2017. 

Saksóknari segir að konan hafi ráðstafað þessum fjármunum heimildarlaust bæði í eigin þágu og fjölskyldu sinnar og að systirin hafi ekki verið fær um að annast fjármál sín vegna heilabilunar. Konan hafði fengið umboð hennar til að annast fjármálin fyrir hennar hönd.

Konan virðist hafa rekið heimili þeirra hjóna fyrir þessa peninga, farið til útlanda, snætt á fínum veitingastað í Madríd og keypt sér tískuföt. 

Tók út reiðufé og keypti gjaldeyri fyrir 52 milljónir

Konan er einnig ákærð fyrir að hafa dregið sér 52 milljónir af öðrum bankareikningi yngri systurinnar. Saksóknari segir að þetta hafi hún annars vegar gert með því að taka út fjármuni í reiðufé og hins vegar með gjaldeyriskaupum.  Í ákærunni má meðal annars sjá nokkrar úttektir í Leifsstöð. 

Konan er sömuleiðis ákærð fyrir að láta eldri systurina greiða VISA-reikninga yfir fimm ára tímabil upp á 3,7 milljónir og fyrir að hafa á sama tímabili dregið sér tæpa hálfa milljón af reikningi systurinnar. Þeir fjármunir voru ýmist millifærðir yfir á reikning konunnar eða greitt var fyrir hluti sem tengdust systurinni ekki neitt, meðal annars stöðumælasektir og bílaviðgerðir.

Konan er einnig ákærð fyrir gripdeild en hún er sögð hafa látið greipar sópa um fimm íbúðir systranna í Reykjavík. Saksóknari segir hana hafa tekið silfurborðbúnað upp á hálfa milljón, koníaksglös, vatnslitamynd eftir Gunnlaug Scheving og pels sem merktur er „Gauntenhaus“, svo fátt eitt sé nefnt.

Kynntust í gegnum félagsstarf í bandaríska sendiráðinu

Ákærunni fylgja einnig röksemdir saksóknara fyrir að sækja hjónin til saka. Þar kemur fram að konan hafi kynnst eldri systurinni í gegnum starf hennar hjá bandaríska sendiráðinu þar sem systirin starfaði um árabil. 

Saksóknari segir það ekki liggja fyrir hvenær vináttan hófst en það megi rekja hana aftur til ársins 2005. Konan hafi hins vegar ekki þekkt yngri systurina persónulega og tengsl þeirra hafi verið takmörkuð við þá eldri. 

Í ákærunni kemur fram að yngri systirin hafi búið í Bandaríkjunum mestan hluta starfsævi sinnar en hún vann hjá Alþjóðabankanum í Washington. Hún flutti heim árið 2006 og var við komuna til landsins lögð inn á heilbrigðisstofnun vegna heilabilunar. Í ákærunni kemur fram að þegar rannsakendur gerðu tilraun til að taka af henni skýrslu árið 2017 hafi hún fljótt týnt þræði.

Fyrstu vísbendingar um heilabilun eldri systurinnar komu fram í júlí 2011. Hún átti að mæta aftur viku eftir minnispróf en mætti aldrei. Næst var minnst á heilabilun þremur árum seinna og svo árið 2017 þegar konan óskar eftir vistunarmati fyrir vinkonu sína. 

Eftir rannsóknir kom í ljós að hún var með alzheimer-sjúkdóm á háu stigi. Rannsakendur gerðu tilraun til að taka skýrslu af henni 2017 en hún gat ekki haldið uppi almennum samræðum.

Systurnar vildu styrkja unga listamenn

Í ákærunni segir að systurnar hafi verið nánar í gegnum tíðina. Þær voru báðar ógiftar og barnlausar en áttu samtals fimm íbúðir í fjölbýlishúsi í Reykjavík. Þær áttu enga skylduerfingja og gerðu sameiginlega erfðaskrá árið 2005. Þar var kveðið á um að stofna skyldi minningarsjóð í nafni þeirra beggja að þeim látnum og skyldu allar eignir þeirra renna í sjóðinn sem átti að styrkja unga listamenn.  

Það var þessari erfðaskrá sem var breytt átta árum seinna þar sem konan var arfleidd að nánast öllum eignum systranna. Aðdragandinn að þeirri erfðaskrá er rakin í ákæru saksóknara. Yngri systirin hafði þá búið á deild vegna heilabilunar í sjö ár. Konan og eldri systirin sóttu hana, fóru með hana til sýslumanns þar sem erfðaskráin var staðfest. Konan greiddi fyrir þjónustu sýslumanns með debetkorti yngri systurinnar.

Glímdu við fjárhagserfiðleika eftir bankahrun

Í ákærunni kemur jafnframt fram að konan hafi talið fram til skatts fyrir hönd systranna árin 2012-2017. Eiginmaður hennar aðstoðaði hana við verkið. 

Þar kemur jafnframt fram að hjónin hafi glímt við mikla fjárhagserfiðleika eftir bankahrunið og að skuldir þeirra hafi hækkað um 95 milljónir króna árið 2011. Þegar brot konunnar hófust hafði hún verið atvinnulaus í rúm tvö, að því er segir í ákæru saksóknara.

Hjónin neita að hafa nýtt fjármuni systranna til að greiða eigin skuldir en konan hefur borið því við að hún hafi nýtt fjármuni þeirra systra til að reka heimili þeirra hjóna. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV