Verja þarf stólpa Lagarfljótsbrúar

03.06.2020 - 15:25
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Hin þrjú hundruð metra langa Lagarfljótsbrú liggur undir skemmdum og ráðast þarf í mikar viðgerðir eigi hún að þjóna hlutverki sínu á næstu árum. Brúarvinnuflokkur Vegagerðarinnar hefur undanfarið skoðað ástand stólpanna sem halda brúnni uppi.

„Við þurfum að gera við um það bil tíu en við eigum eftir að skoða þá betur. Þegar við komumst almennilega að þeim á prömmum. Það hefur brotnað utan af þeim. Kannski er þetta orðin gömu steypa og aðeins farin að losna frá járnum og svo þegar kemur ís á þetta þá brotnar þetta,“ segir Segir Sigurjón Karlsson, yfirverkstjóri hjá Brúnarvinnuflokki Vegagerðarinnar sem gerir út frá Vík.

Sigurjón segir að ekki kæmi á óvart þó steypa þyrfti utan um fleiri en tíu stópla. Á sumum er stálið bert, myndi tærast á nokkrum árum og brúin missa styrk ef ekkert væri að gert. Talsverðar tilfæringar þarf til að steypa á stólpana sem ganga niður í fljótið. 

„Það eru sökklar undir og þeir eru 80 sentimetra breiðir og við þurfum að vera með kassa sem er innan við þá breidd og þrýsta honum niður á sökkulinn. Þétta þannig að við getum dælt upp úr kössunum vatni. Við höfum náð því. Síðan setjum við mót ofan í og steypum í kringum stöpulinn, hvern og einn,“ segir Sigurjón.

Nú eru leysingar, hátt í Lagarfljóti og beðið með viðgerðina. „Við erum að bíða eftri að það lækki í því aftur þannig að það verði komið allavega vel niður fyrir 50 sentimetra fyrir ofan sökkla,“ segir Sigurjón. „Þá getum við alveg átt við þetta með því að vera með tvær dælur í hverjum kassa. Það þarf að ganga bara stöðugt á meðan við erum að steypa og gera allt og græja. Það má ekkert stoppa.“ 

Þessum aðgerðum er ætlað að lengja líf brúarinnar þar til ný Lagarfljótsbrú verður smíðuð en það er áætlað á árunum 2029 til 2033. 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi