Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um hundrað manns sýndu samstöðu á Ísafirði

03.06.2020 - 20:50
Mynd: RÚV / RÚV
Um hundrað manns komu saman á Ísafirði í dag á samstöðufundi vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Líkt og annars staðar hófst fundurinn á átta mínútna og 46 sekúnda þögn til þess að minnast George Floyd, en það er tíminn sem lögreglumaðurinn Derek Chauvin þrýsti hnénu að hálsi hans.

Fundurinn á Ísafirði var haldinn samhliða samstöðufundi á Austurvelli í Reykjavík. Lögregla og skipuleggjendur áætla að á fjórða þúsund manns hafi mætt þar.

Mótmæli og óeirðir vegna dauða George Floyd hafa staðið yfir í rúmlega viku í Bandaríkjunum og virðast ekki í rénun. Þá hafa mótmæli og samstöðufundir farið fram víða um heim.