Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sumarbúðir í Skagafirði fyrir ungmenni með sérþarfir

Mynd með færslu
 Mynd: Kóder
Sumarbúðir fyrir börn með ADHD og einhverfu verða starfræktar í Skagafirði í sumar. Búðirnar eiga að létta álagi af fjölskyldum í kjölfar COVID-19 og fjölga þeim valkostum sem stendur hópnum til boða.

Sumarbúðir ætlaðar ungmennum með ADHD og/eða einhverfu á aldrinum 8-18 ára verða starfræktar í Háholti í Skagafirði í sumar. Markmiðið með búðunum er að fjölga þeim valkostum sem standa til boða fyrir hópinn, rjúfa félagslega einangrun þeirra ásamt að létta álagi af fjölskyldum vegna afleiðinga COVID-19. 

Taka á móti allt að 80 börnum í sumar

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Vilmundur Gíslason framkvæmdastjóri Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar undirrituðu samning vegna sumarbúðanna fyrir helgi. Þær verða opnar frá júní til ágúst þar sem 10-20 börn geta dvalið í eina til tvær vikur í senn. Áætlað er að taka á móti 40-80 ungmennum í sumar.

Vonast eftir framhaldi á verkefninu

Sigfús Ingi sveitarstjóri er ánægður með undirritunina og vonast til þess að áframhald verði á verkefninu eftir sumarið. Ánægjulegt sé að börnin hafi möguleika á að koma og njóta þess sem Skagafjörður hafi upp á að bjóða, aðstaðan í Háholti sé eins og best verður á kosið. 

Ásmundur Einar segir staðreynd að viðkvæmir hópar hafi orðið fyrir miklum áhrifum vegna faraldursins og óvissan sem fylgi hafi mikil áhrif á börn og ungmenni. Samningarnir séu því mikið ánægjuefni og hann sé sannfærður um að börnin muni njóta dvalarinnar.