„Stemningin er margslungin. Það er alveg magnað að taka þátt í þessum mótmælum. Það er mikil samstaða í fólki og þetta eru nauðsynleg og tímabær mótmæli. Fólk er að segja að þetta sé upphafið að byltingu,“ sagði Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í dag. Kolbrún hefur varið undanförnum dögum í mótmæli vítt og breitt um heimaborg sína, New York, og tekið þátt í aðgerðum við Barclays center í Brooklyn, í miðbæ Manhattan og í Williamsburgh í Brooklyn.
Kolbrún segir engan bilbug að finna á mótmælendum. „Ég held að þetta muni aukast. Fólk er að krefjast þess að lögreglumaðurinn sem drap George Floyd verði dæmdur. Það yrði sögulegur sigur. Fólk mun halda áfram að mótmæla þar til verður dæmt [í málinu].“
Tölfræði í Bandaríkjunum sýnir að svartir Bandaríkjamenn eiga í miklu meiri hættu en aðrir að verða fyrir lögregluofbeldi og láta lífið af hendi lögreglumanna. Þeir eru jafnframt mun líklegri til að vera óvopnaðir þegar þeir eru drepnir af lögreglumönnum. Drápið á George Floyd er þar með eitt margra en George var handtekinn fyrir að framvísa fölsuðum seðli í verslun. Aðfarir lögreglumanns við handtökuna, þar sem hann þrýsti hné sínu að hálsi Floyd í 8 mínútur og 46 sekúndur sem leiddi til dauða hans, náðust á myndband og voru kveikjan að þeirri reiðiöldu sem skekur Bandaríkin núna.