Segir mótmælin í Bandaríkjunum upphafið að byltingu

Mynd: Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir / Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir

Segir mótmælin í Bandaríkjunum upphafið að byltingu

03.06.2020 - 11:19
„Maður heyrir bara í sírenum og þyrlum úti á kvöldin,“ segir Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir íbúi í New York sem hefur undanfarna daga tekið þátt í mótmælum undir formerkjum Black Lives Matter. Mótmælin hafa, að hennar sögn, farið friðsamlega fram að mestu en ólíkar fylkingar mótmælenda viðhafa ólíkar aðferðir.

„Stemningin er margslungin. Það er alveg magnað að taka þátt í þessum mótmælum. Það er mikil samstaða í fólki og þetta eru nauðsynleg og tímabær mótmæli. Fólk er að segja að þetta sé upphafið að byltingu,“ sagði Kolbrún Ýrr Rolandsdóttir í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í dag. Kolbrún hefur varið undanförnum dögum í mótmæli vítt og breitt um heimaborg sína, New York, og tekið þátt í aðgerðum við Barclays center í Brooklyn, í miðbæ Manhattan og í Williamsburgh í Brooklyn. 

Kolbrún segir engan bilbug að finna á mótmælendum. „Ég held að þetta muni aukast. Fólk er að krefjast þess að lögreglumaðurinn sem drap George Floyd verði dæmdur. Það yrði sögulegur sigur. Fólk mun halda áfram að mótmæla þar til verður dæmt [í málinu].“

Tölfræði í Bandaríkjunum sýnir að svartir Bandaríkjamenn eiga í miklu meiri hættu en aðrir að verða fyrir lögregluofbeldi og láta lífið af hendi lögreglumanna. Þeir eru jafnframt mun líklegri til að vera óvopnaðir þegar þeir eru drepnir af lögreglumönnum. Drápið á George Floyd er þar með eitt margra en George var handtekinn fyrir að framvísa fölsuðum seðli í verslun. Aðfarir lögreglumanns við handtökuna, þar sem hann þrýsti hné sínu að hálsi Floyd í 8 mínútur og 46 sekúndur sem leiddi til dauða hans, náðust á myndband og voru kveikjan að þeirri reiðiöldu sem skekur Bandaríkin núna. 

Mynd: kolbrún ýrr rolandsdóttir / kolbrún ýrr rolandsdóttir
Myndbönd af mótmælunum sem Kolbrún Ýrr hefur tekið.

Aðgerðir lögreglunnar gegn mótmælendum í Bandaríkjunum hafa vakið athygli um allan heim og þykja bæði harðar og mistækar. Bæði táragasi og gúmmíkúlum hefur verið beitt gegn mótmælendum og handtökur víðsvegar um Bandaríkin hafa verið harkalegar. Kolbrún deilir ekki endilega þeirri upplifun af ástandinu frá þeim mótmælum sem hún hefur sótt. „Það er það sem ég hef séð í fréttum en það er alltaf öðruvísi orðræðan í fréttum en upplifunin úti á götu. Allt sem ég hef tekið þátt í hefur farið rosalega friðsamlega fram. Það voru einhverjar handtökur á fyrstu  mótmælunum sem ég fór á við Barclays center þar sem fólk var að kasta vatnsflöskum í lögreglumenn og kveikja elda. En svo er bara hræðilegt það sem maður sér í fréttum þar sem lögreglumenn eru að spreyja piparúða framan í fólk og svo framvegis.“

Hún segir að mótmælendur sem fylki sig að baki Black Lives Matter hreyfingunni fari fram með friðsömum hætti en anarkista-hreyfingar og andfasískar-hreyfingar séu aðgangsharðari og beiti öðrum meðölum. Reiðin sé þó skiljanleg. „Það er ekki okkar að segja hvernig þetta fólk er að syrgja. Það er verið að eyðileggja einhverjar læknastofur og Target en það eru bara hlutir og þetta eru stórfyrirtæki sem eru að endurspegla kapítalismann. Fólk er bara búið að fá upp í kok. 

Þau líta svo á að þau hafi byggt þetta land frítt og svo hafa þau verið að upplifa kynþáttaníð í 416 ár. 

Mynd með færslu
Mynd sem Kolbrún Ýrr tók í mótmælum í miðborg Manhattan

Útgöngubann hefur ríkt í New York á kvöldin í þessari viku. Á mánudagskvöld hófst það klukkan ellefu en á þriðjudag klukkan átta um kvöld. Kolbrún segir flesta gegna útgöngubanninu með einhverjum undantekningum, enda megi fólk búast við að vera handtekið sé það á ferli. „Fólk var auðvitað að reyna að mótmæla þessu útgöngubanni. Ég styð mótmælin og finnst komi tími til að Ameríkanar fari að mótmæla því sem hefur verið í gangi hérna í mörghundruð ár.“

Viðtalið við Kolbrúnu má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Bækur og myndir til að kynna þér hvítu forréttindin þín

Tónlist

Myrkvun hjá tónlistarfólki á samfélagsmiðlum

Samfélagsmiðlar loga eftir lögregluofbeldi í Ameríku