Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Notkun niðrandi orða um fólk getur verið refsiverð

03.06.2020 - 22:19
Mynd: Kristinn / rúv
Að nota niðrandi orð um fólk sökum húðlitar á opinberum stað getur verið refsivert athæfi, að sögn framkvæmdastjóra Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún telur að það þurfi að vera til skýrar reglur um hvernig eigi að bregðast við aðstæðum þar sem fólk verður fyrir aðkasti og fordómum.

Í fréttum RÚV í gær var sagt frá því að átta mánaða barn hefði orðið fyrir aðkasti vegna húðlitar í Vesturbæjarlauginni í síðustu viku, þegar kona kallaði hann ítrekað niðrandi orði.

„Það eru úrræði fyrir fólk.  Það er ákvæði í hegningarlögunum sem segir það að ef einhver ræðst opinberlega að öðrum með háði, rógi eða svívirðingum vegna uppruna eða kynþáttar sé það refsivert athæfi. Þannig að eitt úrræðið er að kæra til lögreglu,“ segir Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Verklagsreglur vantar

Móðir barnsins endaði á að fara upp úr lauginni með drenginn en konunni sem veittist að þeim var ekki vísað upp úr. Atvikið var þó skráð.

„Það hefði tvímælalaust verið betra ef það hefðu verið einhverjar skýrar verklagsreglur um hvernig eigi að bregðast við svona atvikum. Að það sé þá bara skýrt að svona framkoma sé ekki liðin. Óbeint er hegðunin látin viðgangast,“ segir Margrét.

Hefði viljað sjá fólk bregðast við

Nokkuð margir voru í sundlauginni þennan dag sem urðu vitni að atvikinu, en enginn kom móðurinni til aðstoðar eða varnar. Margrét segir að allir beri ábyrgð á að mannréttindi séu ekki brotin.

„Almennt þegar svona á sér stað þá myndi ég auðvitað sjá umhverfið bregðast við og standa með þeim sem er verið að brjóta gegn. Við verðum auðvitað einhvern veginn að eyða þessum staðalmyndum og framkomu með því að taka virkan þátt í að mótmæla slíkri framkomu.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV