Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Nemendur Jafnréttisskólans bíða þess að komast heim

Mynd með færslu
 Mynd: UNRIC
Flestir nemendur Alþjóðlega jafnréttisskólans (GRÓ-GEST) við Hugvísindasvið Háskóla Íslands eiga í erfiðleikum með að komast aftur til sinna heimalanda vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna fyrir Vestur-Evrópu, UNRIC. Nemendurnir eru 20, sex karlar og fjórtán konur, frá tíu löndum í þremur heimsálfum. Um miðjan mars var skólanum lokað vegna faraldursins og færðist námið þá yfir á netið allt þar til hann var opnaður aftur í byrjun maí. Nemendurnir hafa nú lokið sex mánaða námi sínu hér á landi og komið er að heimför. 

Í tilkyninningunni segir kemur jafnframt fram að í stað rúmlega 30 flugferða frá Keflavík sé nú flogið til þriggja borga erlendis og ekki á hverjum degi.

Haft er eftir einum nemandanum Fathuma Faleela Nadhiya Najab að hún viti ekki hvenær hún komist í flug heim til Colombo á Sri Lanka.  „Ég veit ekki hvort ég fæ flug á morgun, hinn daginn eða hvenær það verður,“ segir hún. Brenda Apeta frá Úganda tekur í sama streng. Á meðan hún bíður eftir flugi skemmtir hún fjölskyldu sinni heima með myndum af björtum sumarnóttum Íslands. 

Samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í desember starfar Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun. Í miðstöðinni eru fjórir skólar sem áður voru starfræktir sem skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi: Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn. Skólarnir eru fjármagnaðir af utanríkisráðuneytinu sem hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu.