Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Læknar vilja fresta opnun landsins eða opna án sýnatöku

03.06.2020 - 19:41
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Smitsjúkdómalæknar á Landspítala telja að það sé ekki góð hugmynd að skima fyrir COVID-19 á landamærunum, líkt og sóttvarnalæknir hefur lagt til. Kostnaðurinn og vandamálin sem því fylgi séu ekki þess virði. Frekar ætti að fylgjast vel með ferðamönnum sem hingað koma.

„Skimun einkennalausra, hraustra einstaklinga ekki góð hugmynd“

Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um sýnatöku ferðamanna á Keflavíkurflugvelli frá og með 15. júní og í framhaldinu á öðrum helstu landamærastöðvum, nema þeir fari í tveggja vikna sóttkví eða framvísi gildu vottorði. Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, segir að þetta sé ekki rétta leiðin til að opna landið.

„Ég er að tala fyrir hönd almennra smitsjúkdómalækna á Landspítalanum og einnig að ég tel lækna á veirufræðideild Landspítalans, og við höfum verið nokkuð sammála um þetta, að skimun einkennalausra, hraustra einstaklinga er ekki góð hugmynd að okkar mati,“ segir Bryndís.

Falskt öryggi

Skimunin geti veitt falskt öryggi, þar sem veiran myndi ekki endilega greinast hjá einstaklingi sem væri nýorðinn veikur, og sá myndi þá valsa óhindrað um landið og gæti smitað út frá sér. „Hugsanlega er einn af hverjum fimm sem eru komnir með einkenni ennþá með neikvætt sýni,“ segir Bryndís. 

„Svo er eitthvað sem heitir falskt jákvætt sýni,“ segir Bryndís, og nefnir sem dæmi þau jákvæðu sýni sem greinst hafa hér á landi seinni hluta maímánaðar. „Það geta verið einstaklingar sem hugsanlega voru veikir eða útsettir fyrir veirunni í mars eða apríl, fjórar til átta vikur liðnar, og þeir eru núna með jákvætt sýni.“ Þeir séu þó ekki með virkt smit.

„Þetta er mjög næmt próf, þetta pikkar upp dauða veiru eða veiklað erfðaefni. Og þetta myndi þýða það að þessi einstaklingur - sem er langlíklegast ekki smitandi og ekki veikur - hann er bara settur í stofufangelsi á Íslandi. Hann þarf að fara á hótel, eða í einhvers konar aðstöðu, með fjölskyldu sinni. Kannski eru börn, það eru tungumálaerfiðleikar, það eru tryggingar, það þarf að gefa þeim að borða væntanlega. Fólk sem ætlaði að vera í viku og er ekki með aðstöðu nema í viku en við ætlum að einangra það í fjórtán daga.“ Þarna sé verið að leggja í mikinn kostnað og viðbrögð vegna einstaklings sem er alls ekki veikur.

Þá þurfi farþegar sem sátu í næstu sætaröðum við viðkomandi í flugvélinni einnig að fara í sóttkví. Ef þessir einstaklingar slasast eða veikjast meðan á dvöl þeirra stendur, fer spítalinn á hættustig ef þeir eru lagðir inn. Bryndís bendir á að álagið á heilbrigðiskerfið hafi verið mjög mikið þegar faraldurinn var í hámarki og önnur verkefni sátu á hakanum. Aðgerðum var frestað og aðgengi að þjónustu skert. 

Fresta eða opna án skimunar

Kostnaður við skimunina hleypur á tugum eða hundruðum milljóna króna. „Ég tel að tímanum og fjármagninu sem er varið í skimverkefnið gæti hugsanlega verið forgangsraðað á annan hátt,“ segir Bryndís.

Á einhverjum tímapunkti þurfi þó að opna landið. Mögulega væri hægt að fresta því, eða opna en sleppa skimuninni. „Ég lagði til að við gætum í raun íhugað það að sleppa skimun en fylgjast vel með ferðamönnum. Ef þeir verða veikir, ef eru klárlega útsettir, þá þarf að prófa. Við prófum fólk sem er með einkenni, eins og við gerðum í faraldrinum, og þá er haldið utan um þá einstaklinga, þeir fara í einangrun, smitrakning fer fram og þetta er það sem við gerðum svo ofboðslega vel í faraldrinum.“ Ef opnun landsins væri frestað væri mögulega hægt að afnema samkomubann og leyfa fjöldasamkomur, svo sem útihátíðir, fjölmenna tónleika og önnur hátíðarhöld.

Bryndís Sigurðardóttir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, ræddu þessi mál í Kastljósi í kvöld. Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella hér.