Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íslendingar skoða áður yfirfulla ferðamannastaði

Mynd með færslu
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Það gæti verið hálfur mánuður í viðbót þar til vegir um hálendið verða opnaðir. Framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands segir Íslendinga hafa mikinn áhuga á svæðum sem hafa hingað til verið yfirfull af erlendum ferðamönnum.

Langflestir hálendisvegir landsins eru enn lokaðir og akstursbann á sumum þeirra. Á þessum tíma í fyrra var búið að opna þá en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er miklu meiri snjór í ár og jafnvel hálfur mánuður í viðbót þar til hægt verður að opna. Vegagerðin og Umhverfisstofnun eru þessa dagana að skoða og meta ástandið og opna vegi um leið og færi gefst. 

Fjallaskálar opna um 20. júní

Með opnun hálendisins verða fjallaskálar einnig opnaðir hjá Ferðafélagi Íslands. Nú þegar er búið að opna í Langadal í Þórsmörk en stefnt á að opna aðra upp úr 20. júní.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, segir að sumarið fram undan verði öðruvísi en venjulega: „Það hefur bara orðið þannig síðustu ár að við Íslendingar höfum svolítið hörfað af þessum svæðum þar sem er gríðarlega mikil umferð af erlendum ferðamönnum.“ 

Íslendingar nýta tækifærið

Innlendum bókunum hefur fjölgað mikið og Íslendingar ætli því greinilega að nýta tækifærið nú þegar erlendir ferðamenn séu ekki á landinu. „Fyrir marga þá er þetta kærkomið tækifæri til dæmis til þess að ganga Laugaveginn og heimsækja þessa þekktu ferðamannastaði sem að hafa verið yfirfullir af túristum,“ segir Páll. Áttatíu og fimm til níutíu prósent þeirra sem fara Laugaveginn í venjulegu árferði séu erlendir ferðamenn. 

Bjartsýn á sumarið

Hann segir 80% samdrátt blasa við félaginu hvað varðar komu erlendra ferðamanna. Þau séu hins vegar bjartsýn á sumarið þótt Íslendingarnir fylli aldrei í skarðið. „Svo líka bara þegar þessi opnun verður á milli landa þá kannski fer þetta nú svolítið af stað þótt það taki tíma,“ segir Páll.

Félagið leggi sig fram um að fylgja reglum og leiðbeingum vegna COVID-19, tjaldsvæðum og skálum sé skipt niður í hólf og strangari reglur settar um notkun á eldhúsum og salernum.