Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gegnir formennsku í fjórum nefndum Lilju

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Fjölmiðlanefnd
Formaður hæfnisnefndar sem lagði mat á umsækjendur um embætti ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytinu, fer með formennsku í fjórum nefndum sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur skipað hann í. Hann hefur verið fulltrúi Framsóknarflokksins í minnst fjórum nefndum til viðbótar. Menntamálaráðherra braut jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar en hún segist hafa fylgt mati nefndarinnar. 

Einar Hugi Bjarnason, formaður hæfnisnefndarinnar sem Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra skipaði til þess að meta umsækjendur um stöðu ráðuneytisstjóra, hefur verið tilnefndur af Framsóknarflokki eða framsóknarráðherra í minnst átta nefndir og ráðgjafahópa. Auk hæfnisnefndar hefur Lilja nýverið skipað hann í þrjár aðrar nefndir eða starfshópa.  

Í fjölmiðlanefnd, þar sem hann gegnir formennsku, í starfshóp sem gera á tillögur að breytingum á fjölmiðlalögum, þar sem hann gegnir einnig formennsku og í áfrýjunarnefnd kærumála háskólanema, þar sem hann er formaður. Hann var fulltrúi Framsóknarflokksins í Stjórnarskrárnefnd og sat með Lilju í sérfræðingahópi forsætisráðherra um skuldavanda heimilanna í tíð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar árið 2013. Hann sat einnig í starfshópi vegna lækkunar á höfuðstól húsnæðislána og lagahópi því tengdum.

Fréttastofa óskaði eftir því við menntamálaráðuneytið fyrir sex mánuðum að fá upplýsingar um í hvaða nefndum Einar Hugi hefði setið á vegum menntamálaráðuneytisins. Fyrirspurnin var ítrekuð í gær og aftur í dag og barst þá svar.

Lilja hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa skipað flokksbróður sinn, Pál Magnússon, í embætti ráðuneytisstjóra í fyrra. Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið gegn jafnréttislögum með skipuninni. Hæfnisnefnd mat fjóra hæfasta og var sú sem kærði ráðninguna, Hafdís Helga Ólafsdóttir, ekki þar á meðal. Auk Páls voru tvær konur og einn karl í þeim hópi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að það kallaði á að menntamálaráðherra skoðaði málatilbúnað og hvort réttilega hefði verið að honum staðið. 

Lilja sagði í skriflegu svari til fréttastofu að hún hefði farið að mati hæfisnefndar við ráðninguna og við sjálfstætt mat hennar hefði hún ekki talið ástæðu til að víkja frá því. 

Auk Einars Huga áttu sæti í hæfnisnefndinni Kristín Ingólfsdóttir fyrrverandi rektor Háskóla Íslands og Guðríður Sigurðardóttir sérfræðingur í ráðningum. Enginn nefndarmanna vildi tjá sig um málið við fréttastofu.