Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjögurra vikna sóttkví fyrir loftrýmisgæslu á Íslandi

Mynd með færslu
Orrustuflugvél ítalska flughersins sem sinnti loftrýmisgæslu við Ísland. Mynd: Giovanni Colla
Ítalski flugherinn sinnir loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins hér á landi frá og með miðjum júní. Liðsmenn flughersins fara í 14 daga sóttkví, læknisskoðun og skimun á herstöð ytra áður en hingað er komið. Við komuna til landsins fara þeir aftur í 14 daga sóttkví, eins og allir sem hingað koma þurfa að gera. Verða þeir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli á meðan.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að ítalski herinn átti að koma hingað í apríl þegar norski flugherinn lauk sinni loftrýmisgæslu. Vegna aðstæðna var komu Ítala seinkað, en áætlað er að 135 liðsmenn flughersins taki þátt í verkefninu sem hefst um miðjan mánuðinn. Flugsveitin kemur til landsins með sex F-35 orrustuþotur og eru þoturnar væntanlegar í næstu viku.

Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 10. til 19. júní.