Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki útilokað að sprittið raski flórunni í smáþörmunum

03.06.2020 - 16:05
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, útilokar ekki að gríðarleg notkun sótthreinsispritts geti valdið varanlegum skaða á ónæmiskerfinu. Handþvottur sé besta vörnin gegn smitsjúkdómum en margir hafi hallað sér full mikið að sprittinu í heimsfaraldrinum. Veirur kunna að verða ónæmar fyrir spritti, en þegar er farið að bera á ónæmi gagnvart öðrum sótthreinsiefnum. 

Langtímaáhrifin óljós

„Það er mjög líklegt, ég held það sé algerlega hægt að bóka það að þetta hefur áhrif á míkróflóruna á yfirborði húðarinnar. Hvaða langtímaáhrif svona gríðarleg notkun á spritti, eins og hefur verið undanfarna mánuði, hefur, það vitum við ekki. Skammtímaáhrifin eru líklega óveruleg, fyrir utan húðpirring og ertingu en það verður fróðlegt frá vísindalegu sjónarmiði að sjá hvort þau verða einhver.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Björn Rúnar Lúðvíksson.

Lítill hluti sprittsins fer inn í líkamann

Björn segir að lítill hluti sprittsins frásogist og hafi jafnvel áhrif á gerlaflóruna í meltingarveginum. „Það er verulega ólíklegt en heldur ekki útilokað og við vitum að samsetning míkróflórunnar þar er mjög mikilvæg fyrir heilbrigði okkar.“ Þá segir hann að sprittið kunni að hafa áhrif á flóruna í öndunarfærunum, við öndum nefnilega hluta af sprittinu að okkur þegar það rýkur upp af höndunum. 

Gríðarleg notkun hjá sumum

Sala og notkun á handspritti jókst gríðarlega í faraldrinum, sums staðar mátti fá það í margra lítra brúsum. Þrír mánuðir eru kannski ekki langur tími. „Þetta hefur náttúrulega verið alveg gríðarleg notkun, sérstaklega hjá sumum, það er einstaklingsbundið. Þess vegna er erfitt að segja til um þetta,“ segir Björn Rúnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV

Gæti ýtt undir hjarta- eða meltingarsjúkdóma

En hver gætu hugsanleg langtímaáhrif verið? „Fljótt á litið væru það áhrif á míkróflóruna á húðinni, hún er mjög mikilvægt í því að hindra innrás annarra sýkla og veira. Það er ákveðin samkeppni á yfirborðinu og þannig verndar míkróflóran okkur. Það gæti orðið til þess, þó það sé ekki endilega líklegt, að við förum að sjá aðrar birtingarmyndir smitsjúkdóma næstu mánuði og ár. Mér finnst það frekar ólíklegt en það er möguleiki. Hitt sem er kannski alvarlegra væri það að ef þetta hefur langtímaáhrif á míkróflóruna, þá gætum við séð breytingar á þessum sjúkdómum sem hafa mestu tengslin við breytingar á þessari míkróflóru, yfirborðsflórunni á líkamanum. Það eru fyrst og fremst krónískir, langvinnir bólgusjúkdómar, hjarta- og æðasjúkdómar sumir hverjir, meltingarfærasjúkdómar, húðsjúkdómar, astmi, ofnæmi, gigtarsjúkdómar, það er gríðarlega margt sem er þar undir.“

Sniðugir stofnar gætu aðlagast sprittinu

Björn segir að það hafi alltaf verið skilaboð stjórnvalda til almennings hafi verið skýr, handþvotturinn sé mikilvægastur. Sprittið sé þó oft handhægara, og mikilvægt, sérstaklega þar sem ekki er gott aðgengi að rennandi vatni.  En virkar sprittið til lengri tíma litið, geta nýja kórónuveiran og aðrar veirur eða sýklar ekki myndað ónæmi fyrir því? „Sýklarnir eru svo ótrúlega sniðug fyrirbæri að það er ekki hægt að útiloka það en það hefur ekki verið raunin með etanólið, ekki enn sem komið er,  við sjáum aftur á móti, með vaxandi notkun á öðrum sótthreinsandi efnum að þar er að verða til sýklaónæmi, það er alvarlegt því sum af þeim efnum eru lykilefnin þegar kemur að því að sótthreinsa hendur og fólk fyrir skurðaðgerðir, þetta er til dæmis Klórhexidín en það er ekki notað mikið inni á heimilum. Það er hægt að kaupa það en ég myndi ráða fólki frá því. Hvort þessi gríðarlega notkun á etanóli og etanóllíkum afurðum leiði til þess að það komi upp stofnar sem eru ónæmir fyrir spritti, það er erfitt að segja til um það en ég myndi segja að líkurnar væru meiri en minni, það er að segja ef notkunin heldur áfram. Sýklarnir eru þannig og sérstaklega veirurnar og sumar bakteríur. Þær eru svo ótrúlega sniðugar að laga sig að nýju umhverfi að það er hreint með ólíkindum. 

Notkun handspritts er að sögn sérfræðings hjá Umhverfisstofnun ekki talin hafa alvarleg áhrif á umhverfið.

Mynd með færslu
 Mynd: webmd
Kórónuveira.