Breska stjórnin í talnaleik

03.06.2020 - 19:21
Mynd: EPA-EFE / DOWNING STREET
Breska stjórnin var sein að setja á samkomubann vegna COVID-19 veirunnar. Eftir misvísandi upplýsingar hika breskir foreldrar við að senda krakkana í skólana en samt flykkist fólk á strendur og útisvæði í góða veðrinu. Og hagstofustjóri Breta telur ríkisstjórnina beita tölfræðiblekkingum.

Veiruaðgerðir ekki sama og að fara í  megrun

Boris Johnson forsætisráðherra þótti í upphafi veirufaraldursins makalaust seinn til aðgerða. Síðasta föstudaginn í febrúar, þegar Ítalía var í uppnámi vegna hraðrar útbreiðslu og Bretar voru enn að halda stórsamkomur þrátt fyrir veirutilfelli, tilkynnti forsætisráðherra að veiran væri forgangsmál. Því ætlaði hann að halda neyðarfund næsta mánudag. Það fór ekki framhjá háðfuglum á Channel Four. Varla mjög brýnt ef það er nóg að halda fund eftir þrjá daga. Það þarf ekki að byrja á mánudegi, þetta er ekki megrunarkúr.

Rokkandi tök stjórnarinnar á tölfræðinni

Athyglin þessa dagana beinist mjög að COVID-19 tölfræðinni. Það er erfitt að segja allan sannleikann án tölfræði en það er líka auðvelt að villa um með tölfræði. Og sjaldan hafa traustar tölfræðiupplýsingar verið jafn áríðandi og nú.

Tök bresku stjórnarinnar á COVID-19 tölfræði hafa verið rokkandi. Lengi vel sýndu birtar dánartölur aðeins þá sem dóu á sjúkrahúsum, ekki þá sem létust á hjúkrunar- og elliheimilum. Það kostaði töluvert þref að fá heildartölurnar birtar.

Deilt um skimanir

Skimanir eru annað deilumál. Ríkisstjórnin gerði skimun að pólitísku bitbeini með loforðum sem hún hefur átt erfitt með að efna. Reyndi þannig að sefa áhyggjur heilbrigðisstarfsmanna, sem töldu að skortur á skimun væri ógnun við öryggi þeirra og  öryggi sjúklinganna. Loforðið var 200 þúsund skimanir á dag fyrir lok maí.

Framkvæmdar skimanir og skimunargeta

Birting talna er liður í daglegum upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar í Downing stræti. Stundum hafa tölur um skimanir innihaldið bæði skimanir og skimunarpakka senda í pósti, þá alveg óljóst hvað margir voru í raun skimaðir. Á mánudaginn kynnti Matt Hancock heilbrigðisráðherra sunnudagstölurnar, rúmlega 128 þúsund skimanir.

En 128 þúsund er hvergi nærri loforðinu um 200 þúsund skimanir. Hancock hnykkti á að getan til að skima væri rúmlega 206 þúsund á dag svo þarna væri drjúg umframgeta.

Af hverju það er þessi viðloðandi munur á skimun og skimunargetu er liður í sjónarspili stjórnarinnar í kringum þessar tölur.

Hagstofustjóra líst ekki á talnaleikinn

Sjálfur hagstofustjóri Breta, Sir David Norgrove hefur áhyggjur af þessum talnaleik og viðraði þær 11. maí í bréfi til ríkisstjórnarinnar. Sir David telur greinilega að stjórnin hafi alls ekki brugðist við fyrri aðfinnslum því nú hefur hann skrifað annað bréf.

Tölur notaðar til að láta líta út eins og loforð sé uppfyllt

Hagstofustjóri bendir á að tölurnar séu nauðsynlegar til að auka skilning á veirufaraldrinum og til að stýra skimuninni. Birting talnanna hingað til styðji hvorugt markmiðið. „Markmiðið,“ segir hagstofustjóri, „virðist helst vera að sýna hæstu mögulega tölu um skimanir.“ – Skýrara er varla hægt að segja það: hagstofustjóri telur að ríkisstjórnin reyni að láta líta út eins og hún nái skimunarloforðum sínum sem sé þó ekki raunin.

Veiruklemma stjórnarinnar

Þessi uppákoma er aðeins eitt dæmið um ærlega veiruklemmu bresku stjórnarinnar. Og hér tala tölurnar sínu máli. Fjöldi látinna hér í veirufaraldrinum er kominn yfir fimmtíu þúsund, hærri tala en í nokkru öðru landi að Bandaríkjunum undanskildum. Þessi tala skekur landsmenn. Fjórðungur vinnandi fólks er nú heima en á bresku hlutabótaleiðinni. Klárlega skekjandi tala fyrir stjórnina, sem reynir að telja landsmenn á að fara í vinnuna.

Margir foreldrar hika við að senda krakka aftur í skólann

Á mánudaginn var máttu yngstu og elstu bekkir grunnskólans mæta aftur í skólann. En annars vegar eru margir skólar sem treyst sér ekki til að opna, hins vegar treysta foreldrar ekki orðum stjórnarinnar að það sé í lagi að senda krakka í skólann.

Slakað á samkomubanni – kannski til að fela aðrar fréttir

Fyrir helgi var svo lýst yfir að 1. júní yrði líka slakað frekar á samkomubanni: sex einstaklingar mega hittast utan dyra, í heimilisgörðum eða almenningsgörðum. Það vakti þó miklar bollaleggingar þegar fréttist að fólk mætti ekki nota salernið í annarra manna húsum.

Þessum tilslökunum hefði átt að fylgja lækkað viðvörunarstig, af fjórða og næsthæsta stigi niður á þriðja stig. Það varð þó ekki, landlæknir Englands virðist hafa beitt neitunarvaldi. Líka ljóst að ýmsir vísindamenn sem hafa veitt stjórninni veiruráð telja nú að stjórnin sé að slaka of hratt á veirubönnum. Jafnvel heyrðist að stjórnin hefði rokið í tilslökun til að drekkja fréttunum af broti Dominic Cummings ráðgjafa forsætisráðherra á ferðabanni.

Talnahringl og óskýr skilaboð = vantraust

Talnahringl bresku stjórnarinnar og óskýr skilaboð eru ein ástæðan fyrir því vantrausti sem ríkisstjórnin glímir nú við þegar hún reynir að koma efnahagslífinu í gang.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi