Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ætlar að pína barnabörnin til að erfa húsgögnin

Mynd: RÚV / Menningin

Ætlar að pína barnabörnin til að erfa húsgögnin

03.06.2020 - 12:56

Höfundar

Hljómsveitin Hatari hefur getið sér orð fyrir grjótharða raftónlist, hápólitíska texta og háskalega ímynd. Það kom því mörgum á óvart þegar annar forsprakki hennar, Klemens Hannigan, skipti leðurgallanum út fyrir smíðavesti en hann hannar og smíðar húsgögn.

„Ég hef alltaf verið handlaginn og haft þörf til að vinna með höndunum,“ segir Klemens um þennan áhuga sinn, sem er fjarri því nýtilkomin. „Þetta hefur bara fylgt frá unga aldri. Mér gekk vel í smíðavinnu í grunnskóla og hún hefur fylgt mér síðan. “

Klemens útskrifaðist úr menntaskóla í Brussel en afréð eftir það að flytja heim til Íslands og skráði sig í húsgagnasmíði í Tækniskólanum. „Ég blómstraði í því umhverfi, bæði að geta unnið að handverkinu en líka að fá rými til að hanna eigin gripi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin
Stóll sem Klemens hannaði og smíðaði.

Klemens lauk náminu og komst á samning í verkstæði. „En það var ekki alveg draumurinn sem ég var með. Markaðurinn fyrir húsgagnasmíði á Íslandi í dag er allt annar en hann var fyrir 50 árum. Þetta er aðallega fjöldaframleiðsla á eldhúsinnréttingum, sem ég var ekki alveg að fíla mig í jafn mikið og í tónlistinni eða í að hanna og búa til eigin húsgögn.“

Klemens sneri sér því að listsköpun. Hann hefur lokið starfsnáminu og á aðeins eftir að klára sveinsprófið í húsgagnasmíðinni en efast um að hann sækist eftir því úr þessu. Hatari hefur notið mikillar velgengni undanfarin misseri en upp á síðkastið hefur Klemens snúið sér aftur að smíðunum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin
Klemens tók aftur upp húsgagnasmíðina í samkomubanninu.

„Á tímum COVID er maður orðinn atvinnulaus fátækur listamaður svo ég greip aftur í verkfærin. Mamma og pabbi ákváðu að styrkja mig með því að panta hillur sem ég smíðaði handa þeim. Það má segja að það hafi komið upp um mig, að ég kynni að smíða og ég hef verið að taka við pöntunum.

Samhliða smíðunum vinnur Klemens nú að sinni fyrstu sólóplötu. Hann segir tónlistina og smÍðarnar fara vel saman og dreymir um að innrétta húsnæði sitt allt sjálfur með tíð og tíma.

„Ég hætti ekkert fyrr en bæði húsið og allt inn í húsinu er unnið út frá mínu höfði. Ég ætla að pína barnabörnin til að erfa skápinn, stólinn og allar mínar mublur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Menningin

Tengdar fréttir

Tónlist

Angurvær Klemens syngur sigurlag Hollands

Tónlist

Klemens stofnaði Kjurr vegna tannréttinga

Innlent

Klemens kallaður upp vegna saumavélar

Stjórnmál

„Listin er alltaf bomban“