Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Áætla að á fjórða þúsund hafi komið saman á Austurvelli

03.06.2020 - 18:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Áætlað er að á fjórða þúsund hafi komið saman á samstöðufundi á Austurvelli í dag, sem haldinn var vegna ástandsins í Bandaríkjunum. Fundurinn hófst á átta mínútna og 46 sekúnda þögn til þess að minnast George Floyd, en það er tíminn sem lögreglumaðurinn Derek Chauvin þrýsti hnénu að hálsi hans. Þá voru lesin upp nöfn svartra Bandaríkjamanna sem látist hafa eftir samskipti við lögreglu.

Fundurinn, sem skipulagður var af nokkrum Bandaríkjamönnum sem búa á Íslandi, hófst klukkan hálf fimm og lauk lauk laust eftir klukkan sex. Derek T. Allen, einn skipuleggjanda viðburðarins, segir að á fjórða þúsund hafi mætt á Austurvöll. Einnig voru samstöðufundir á Akureyri og á Ísafirði í dag.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir fundinn hafa farið vel fram. Lögregluyfirvöld hafi verið í góðu sambandi við skipuleggjendur og allt hafi verið til fyrirmyndar. Þá hafi lögreglan ekki gripið til sérstakra ráðstafana vegna fjöldans, en enn er í gildi samkomubann sem kveður á um að ekki megi fleiri en 200 koma saman.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV