Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

90% styðja Guðna Th. Jóhannesson

03.06.2020 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands er með 90,4% fylgi fyrir forsetakosningarnar. Guðmundur Franklín Jónsson er með 9,6% en nýtur mests stuðnings meðal eldri kjósenda og stuðningsmanna Miðflokksins.

Þetta er fyrsti þjóðarpúls Gallups fyrir forsetakosningarnar í sumar. Guðni Th. Jóhannesson er með yfirburðafylgi á mótframbjóðanda sinn Guðmund Franklín Jónsson. Það á við nánast hvernig sem fylgi frambjóðenda er greint. Áttatíu og sex prósent karla ætla að kjósa Guðna en 14% Guðmund Franklín. Níutíu og fimm prósent kvenna ætla að kjósa Guðna en 5% Guðmund. 

 

Guðmundur sækir fylgi sitt aðallega til elsta kjósendahópsins.  

Stuðningur við Guðna meðal kjósenda ríkisstjórnarflokkanna þriggja er á bilinu 90-95%, en 100% stuðningsmanna Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar segjast styðja hann.

Allt annað er uppi á teningnum hjá stuðningsmönnum Miðflokksins: Meirihluti þeirra, 55% styður Guðmund Franklín en 45% Guðna.

Af þeim sem sögðust styðja aðra flokka ef kosið yrði til Alþingis í dag, þar með talið Flokk fólksins og Sósíalistaflokkinn, ætla 76% að kjósa Guðna en 24% Guðmund Franklín. Gallup gerði netkönnun 29. maí til 3. júní. Heildarúrtaksstærð var 1.108 manns og þátttökuhlutfall um 55%.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV