Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

25 prósenta samdráttur í heildarafla íslenskra skipa

03.06.2020 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Heildarafli íslenskra skipa var 25% minni á fyrsta ársfjórðungi 2020 miðað við sama tímabil í fyrra. Aflasamdráttur varð í nær öllum fisktegundum.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Heildaraflinn var rúm 178 þúsund tonn fyrstu þrjá mánuði ársins, samanborið við rúm 238 þúsund tonn á fyrsta ársfjórðungi 2019.

Aflaverðmæti dróst einnig saman. Það var tæpir 34,2 milljarðar króna á fyrsta ársfjórðungi 2020 á móti rúmum 36,2 milljörðum á sama tímabili 2019. Þetta er samdráttur um 5,6%. Verðmæti botnfisktegunda var um 31,5 milljarðar á fyrsta ársfjórðungi og stendur í stað milli ára, þrátt fyrir 9% samdrátt í aflamagni.

Eins og áður hefur komið fram er samdráttur í heildarafla íslenskra skipa að stórum hluta rakinn til heimsfaraldurs kórónuveiru. Eftirspurn eftir fiski í Evrópu dróst verulega saman þess vegna.