„Virðir ekki leikreglur lýðræðisins“

Mynd: EPA-EFE / ABACA POOL
Donald Trump er erkitýpa af þjóðernispopúlískum stjórnmálamanni sem virðir ekki endilega leikreglur lýðræðisins, segir Eiríkur Bergmann stórnmálafræðiprófessor. Trump Bandaríkjaforseti segist ekki hika við að beita hervaldi til að binda enda á óeirðirnar í landinu. Þjóðvarðlið hefur verið kallað út í meira en tuttugu ríkjum Bandaríkjanna til að hjálpa til við að koma á lögum og reglu.

Mótmæli og óeirðir vegna dauða George Floyd, hafa nú staðið sjö daga í röð og virðast ekki í rénun. Hótanir hans Trumps um að beita hernum hafa verið fordæmdar hér á landi og erlendis.

Í leiðara Der Spiegel á dögunum var bent á að fyrir forsetakosningarnar 2016 hafi Trump boðað múr við Mexíkó, tollamúra og að hann ætlaði að hætta alþjóðlegum samskipum.

Menn hafi ekki tekið þetta alvarlega en allt hafi þetta orðið að veruleika og meira til. Nú talar hann margítrekað um póstkosningar og kosningasvindl. Spiegel bendir líka á að hann hafi mjög traustan meirihluta í Hæstarétti en það var einmitt Hæstiréttur sem ákvað í raun úrslitin í forsetakosningunum árið 2000, þegar vafi ríkti um niðurstöðuna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eiríkur Bermann bendir á að fyrir kosningarnar 2016 hafi Trump augljóslega verið að undirbúa það að hafna niðurstöðunni ef hún yrði óhagstæð. Niðurstaðan varð sú að Trump var kjörinn forseti þótt andstæðingurinn Hillary Clinton fengi þremur milljónum fleiri atkvæði.

„Sú staða gæti komið upp í haust og þessi ummæli gætu verið einhvers konar undirbúningur að því að hann geti hafnað niðurstöðunni, sérstaklega ef mjótt verður á munum,“ segir Eiríkur í viðtali við Spegilinn sem hlusta má á hér að ofan. „En gleymum því ekki að Donald Trump er ansi klókur stjórnmálamaður og framganga hans nú getur verið liður í því.“

Eiríkur var að gefa út bók um Ný-þjóðernishyggju. Þar er klassískur slíkur leiðtogi sagður búa til utanaðkomandi ógn, benda á innlenda svikara en segjast sjálfur vera hinn eini sanni verndari þjóðarinnar.

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi