Valdi að koma heim til að klára námið

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Valdi að koma heim til að klára námið

02.06.2020 - 20:30
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handbolta, gekk í gær í raðir ÍBV í Olís-deild kvenna frá franska liðinu Bourg-de-Péage. Hún segir nám sitt hér heima vera aðalástæðuna fyrir því að hún kom heim frá Frakklandi nú.

Hrafnhildur Hanna gekk til liðs við Péage síðastliðið sumar frá uppeldisfélagi sínu, Selfossi. Hún segir ástæðuna fyrir því að hún snýr aftur heim eftir eitt ár vera einfalda.

„Ég er í meistaranámi í sjúkraþjálfun og á bara lítið eftir, aðallega bara verknám, og það er svona best að gera það á Íslandi. Svona, já, besta leiðin fyrir mig. Ég hugsaði þetta mikið, hvort ég ætti að koma heim eða hvort að ég ætlaði að vera áfram úti en þá var spurning með skólann, hvort ég myndi setja hann alveg á pásu eða þá koma heim og klára hann og ég ákvað að gera það.“ segir Hrafnhildur.

Hrafnhildur Hanna var markadrottning úrvalsdeildar kvenna þrjú ár í röð, frá 2015 til 2017 og valin besti sóknarmaður deildarinnar sömu ár. Hún gengur nú til liðs við ÍBV, sem varð í 7. sæti Olís-deildarinnar í ár, og hún hefur mikla trú á liðinu á næsta vetri.

„Mér finnst það bara spennandi staður. Ég hef mikla tengingu til Vestmannaeyja, báðir foreldrar mínir eru fæddir þar og ég á mikið af ættingjum þar þannig að sú tenging er til staðar. Þannig að mér finnst þetta mjög spennandi staður og svo er þetta bara flott umhverfi, flott fólk sem er þarna, flott umgjörð, og bara spennandi hópur finnst mér að koma inn í. Það er auðvitað skrítið að fara í eitthvað annað lið á Íslandi heldur en Selfoss, Selfoss-hjartað er bara það stórt, en eins og ég segi þá er ég alveg svona, það er smá Vestmannaeyingur í mér, bara svona pínulítill, þannig að það er allt í lagi. Það er bara gaman að prófa það.“ segir Hrafnhildur.

Ummæli Hrafnhildar má sjá í spilaranum að ofan.