Telja að um 4.000 manns búi í atvinnuhúsnæði

Mynd með færslu
Atvinnuhúsnæði með íbúðum. Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Um fjögur þúsund manns búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu, að því er fram kom í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra, á Alþingi í dag, við fyrirspurn Bjarkeyjar Olsen, þingflokksformanns Vinstri grænna.

Í svarinu kemur fram að slökkviliðsstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafi árið 2017 gert könnun á búsetu fólks í atvinnuhúsnæði og að samkvæmt nýlegri endurskoðun sé áætlað að um fjögur þúsund einstaklingar búi í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er leyfilegt að skrá lögheimili í húsnæði sem ekki er skráð sem íbúðarhúsnæði og því liggja ekki fyrir opinberar tölur um málið.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, segir að endurskoðunin sé síðan fyrir um einu og hálfu ári. Síðustu ár hafi frekar verið aukning á slíkri búsetu en hitt. „Það er í rauninni það sem við höfum séð síðastliðin ár, svona taktviss aukning,“ segir hann. 

Mynd með færslu
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Mynd: Arnar Páll Hauksson

 

Börn eru meðal þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði

Slökkviliðsmenn hafa oft orðið vitni að því að börn búi í atvinnuhúsnæði, að sögn Jóns Viðars. Bæði búi fjölskyldur í íbúðum eða í húsnæði sem sé nokkurs konar heimavist, með mörgum herbergjum og sameiginlegu eldhúsi og salerni.

Hafa helst áhyggjur af eldvörnum

Helstu áhyggjur af slökkviliðsmanna af slíkri búsetu snúa að eldvörnum enda gilda oft aðrar reglur um þær í iðnaðarhúsnæði en í íbúðarhúsnæði. Jón Viðar segir að þeir sem eigi fasteignirnar beri ábyrgð á því að tryggja öryggi leigjenda. „Fyrir utan auðvitað að það er ólöglegt að breyta iðnaðarhúsnæði nema fá til þess leyfi frá byggingafulltrúa og leggja inn þá nýjar teikningar og annað. En það eru brunavarnir númer eitt tvö og þrjú, að fólk verði vart við bruna og komist út. Sem dæmi má nefna nýlegan bruna í Hrísey,“ segir slökkviliðsstjórinn og á þar við eldsvoða sem kom upp í frystihúsi í Hrísey 28. maí. Einn maður var sofandi í húsinu þegar eldurinn kom upp en honum tókst að forða sér út og hringja í Neyðarlínuna. 

Fram kemur í svarinu að ráðherra hafi ekki vitneskju um að sambærileg könnun hafi verið gerð annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Því liggi ekki fyrir upplýsingar um fjölda þeirra sem kunni að búa í atvinnuhúsnæði á landsbyggðinni.

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi