Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Svíþjóð: Minni takmörk hafa ekki skilað betri efnahag

02.06.2020 - 22:16
epa08336698 People sit at an outdoor restaurant in Kungstradgarden park in Stockholm, Sweden, 27 March 2020 (issued 01 April 2020), amid the coronavirus pandemic. Countries around the world are taking measures to contain the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/Henrik Montgomery  SWEDEN OUT SWEDEN OUT
Stjórnvöld í Svíþjóð hafa enn ekki fyrirskipað að fyrirtækjum, þar með töldum kaffihúsum, skuli lokað. Mynd: EPA-EFE - TT Scanpix
Þó víða í Svíþjóð hafi verið beitt minni takmörkunum en víða annars staðar hefur það ekki skilað sér í betri efnahag en annars staðar á Norðurlöndum. Spáð er ívið meiri samdrætti á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum á þessu ári.

Samdráttur og atvinnuleysi einkenna flest lönd vegna Covid-nítján faraldursins. Þar eru Norðurlöndin engin undantekning.
Á Íslandi spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn 7,2% samdrætti á þessu ári og 17,8% vinnumarkaðarins voru án atvinnu í lok apríl, í það minnsta að hluta.

Annars staðar á Norðurlöndunum er staðan ögn skárri. Í Noregi spáir norski seðlabankinn 5,2% samdrætti í ár og 12,1% eru með enga eða skerta vinnu.

Í Danmörku spáir ESB 5,9% samdrætti á árinu og þar eru rúm 14% atvinnulaus að hluta eða öllu leyti.

ESB spáir 6,3% samdrætti í Finnlandi og þar voru í apríl 16,5% með skerta eða enga atvinnu.

Svíar héldu hlutunum meira gangandi en margar nágrannaþjóðir, til dæmis voru veitingahús áfram opin. Vonast var til að það væri jákvætt fyrir sænskan efnahag en það virðist ekki vera raunin sé borið saman við önnur norræn lönd. ESB spáir 6,1% samdrætti í Svíþjóð, og 15,9% mannafla þar er atvinnulaus eða á hlutabótum. Atvinnuleysið þar er það mesta í fimm ár og búist er við að það aukist enn frekar.

Eins og víða annars staðar er það ferðaþjónustan sem verður verst úti í þessum samdrætti. Sem dæmi eru gjaldþrot í ferðaþjónustunni í Danmörku fjórum sinnum fleiri en venjulega og hótelin hafa misst yfir 90% af tekjum sínum.

En nú hillir undir að ferðamenn fari að koma að nýju. Íslendingar, Norðmenn og Danir opna löndin að hluta fyrir ferðamönnum 15. júní og það vekur vonir um betri tíð þó það taki tíma. 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV