Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stefna að tilraunum í heimaslátrun með haustinu

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Stefnt er að því að hefja tilraunir með heimaslátrun í haust. Taka á sýni úr lömbum sem verður slátrað heima og kanna gæði kjötsins. Bóndi segir að heimaslátrun auki verðmætasköpun og ýti jafnvel undir nýsköpun.

Samvinnuverkefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, Landssamtaka sauðfjárbænda og Matvælastofnunar um heimaslátrun er í undirbúningi og stefnt er að því að tilraunir með hana geti hafist í haust. 
Nú þurfa bændur sem selja beint frá býli að fara með dýrin í sláturhús og borga heimtökugjald. Bændur hafa lengi kallað eftir breytingum á lögum um heimaslátrun sem geri þeim kleift að slátra eigin fé heima á bæ, vinna það og selja.

„Það er nú bara vegna þess að við fáum ekkert fyrir lömbin okkar eiginlega, við getum gert okkur miklu meiri mat úr þessu ef við fáum að selja þetta sjálfir og vinna þetta sjálfir“ segir Þröstur Heiðar Erlingsson, bóndi í Birkihlíð í Skagafirði sem er í undirbúningshópnum. Þá séu tengslin við neytendur mikilvæg og gæði vörunnar verði meiri þar sem ferlið sé hægara og kjötið fái að hanga og meyrna.

Sýni tekin til að kanna gæði kjötsins

Ætlunin er að þeir bændur sem vilja geti slátrað nokkrum lömbum heima í haust. Sýni verða rannsökuð til að kanna gæði kjötsins. Lömbunum verður slátrað við mismunandi aðstæður til að fá breiðari grunn af sýnum.

Niðurstöðurnar verða notaðar til þess að meta hvort gæði kjötsins séu ásættanleg og reynslan þá mögulega nýtt til að aðlaga núgildandi regluverk varðandi heimaslátrun og bændum gert kleift að slátra heima.

Bændur geti ekki keypt sér skópar fyrir lambið

Þröstur Heiðar segir að heimaslátrun geti opnað nýjan glugga fyrir bændur og aukið nýsköpun. Þegar bændur taki kjötið heim af sláturhúsum fái þeir hvorki innmatinn né gærurnar. Það sé því möguleiki á að nýta meira hráefni sé slátrað heima. Þá búi margir bændur svo langt frá sláturhúsum að það sé ekki möguleiki að ætla að taka kjötið heim og vinna það. Hann segir að kerfið gangi ekki eins og það sé núna enda geti bændur varla keypt sér skó á vinstri fótinn hvað þá báða fyrir það sem þeir fái greitt fyrir lambið sem sé um 6 þúsund krónur.

Landbúnaðarráðherra styður verkefnið

Í skriflegu svari frá ráðuneytinu segir að unnið sé að útfærslu verkefnisins og vonir standi til að það verði kynnt á næstunni. Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra leggi áherslu á framgang verkefnisins. Því sé leitað leiða til að ljúka því í samræmi við lög og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hafi undirgengist. 

„Íslenskar reglugerðir hafa ekkert um þetta að segja orðið, það er bara ESB sem ræður og manni finnst það nú dálítið sorglegt„ segir Þröstur Heiðar. Hann sé þó bjartsýnn á að verkefnið verði að veruleika og margir bændur hafi lýst áhuga á að taka þátt.