Skoffín - Skoffín hentar íslenskum aðstæðum

Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir / Skoffín

Skoffín - Skoffín hentar íslenskum aðstæðum

02.06.2020 - 18:30

Höfundar

Hljómsveitin Skoffín byrjaði sem eins manns verkefni Jóhannesar Bjarka en fljótlega eftir útgáfu á plötunni Skoffín bjargar heiminum varð verkefnið að hljómsveit. Skoffín hentar íslenskum aðstæðum er önnur plata þeirra en hún var tekin upp í Reykjavík og London af Árna Hjörvari Árnasyni sem hljóðblandaði einnig plötuna og spilar á hljóðgervla og slagverk.

Hljómsveitin Skoffín er þekkt fyrir kraftmikla blöndu sína af post-pönki og indírokki auk líflegrar sviðsframkomu. Eitt aðalsmerki hennar hefur verið textagerð en sveitin leggur mikið upp úr íslenskum textum sínum sem fjalla um ýmsar hliðar lífsins. Hljómsveitin er skipuð söngvaranum, lagasmiðnum og gítarleikaranum Jóhannesi Bjarka, Auðunn Orri og Sævar Andri mynda hryndeild hljómsveitarinnar en Bjarni Daníel og Jóhannes glamra síðan á gítar. Hljómsveitin er þekkt fyrir öfluga og líflega sviðsframkomu og íslenska texta sem gefa indírokktónlistinni þeirra heimilislegan blæ.

Skoffín hentar íslenskum aðstæðum er samin á sumarmánuðum 2019 og inniheldur sjö lög. Hugarheimur plötunnar er fyrst og fremst byggður á andrúmsloftinu á Íslandi á árum kalda stríðsins, eða þar liggur hugmyndin að plötunni eins og segir í tilkynningu frá sveitinni. Íslensk menning og veruleiki eru könnuð í gegnum texta, vísanir og hljóðbrot sem mynda eina heild. Borinn er saman veruleiki tuttugustu og fyrstu og tuttugustu aldarinnar í gegnum samanburð á annars vegar kjarnorku- og hins vegar loftslagsvánni ásamt að sýna fram á hvernig hernámið, þorskastríðið og alþjóðavæðingin hefur hugsanlega haft áhrif á þjóðernisvitund Íslendinga. Markmið plötunnar er að skoða hliðstæður í menningarheimi yngri og eldri kynslóðarinnar ásamt að skapa nýtt sjónarhorn á sjálfstæði Íslands.

Skoffín hentar íslenskum aðstæðum er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni og er klár í spilaranum hér að ofan ásamt kynningum sveitarinnar á lögum sínum.

Skoffín - Skoffín hentar íslenskum aðstæðum