Popp í Reykjavík var á dagskrá RÚV í gær og er aðgengileg í spilara til 1. júlí. Í myndinni er leitast við að skjalfesta reykvíska tónlistarsenu þess tíma. Meðal 24 hljómsveita og listamanna sem þar koma fram eru Quarashi, Bang Gang, Gusgus, Stjörnukisi, Risaeðlan, Subterranean og Sigur Rós. En einna mesta athygli vakti þó Páll Óskar og greining hans á næturlífinu. „Við höfum bara tvo klukkutíma til að fríka út og fá okkur að ríða. Og gera allt í einu sem normal fólk úti í heimi gerir á kannski níu klukkutímum. Maður þarf að vera ofsalega mikið í stakk búinn og til í allt á mjög stuttum tíma,“ segir hann í myndinni og bætir við að þess sjáist glöggt merki í þjóðarsálinni. „Hún er svolítið harðsoðin, hún er algjör harðfiskur. Og hún er til í tuskið. En gleymið ekki einu, að við erum að díla við Íslendinga. Og Íslendingar eru hillbillís með kreditkort – allir.“
Popp í Reykjavík er aðgengileg í heild sinni í spilara RÚV til 1. júlí. Leikstjóri er Ágúst Jakobsson.