Hefilstjóri lenti undir hjóli hefilsins og lést

02.06.2020 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: RNSA - RÚV
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að hefilstjóri, sem var við vinnu á Ingjaldssandsvegi í júní á síðasta ári, hafi farið reynt að forða sér áður en hefillinn lenti utan vegar. Hann hafi lent undir framhjóli vinnuvélarinnar og látist af völdum áverka sem af slysinu hlutust. Nefndin mælist til þess að fyrirtæki og stofnanir hafi tvo starfsmenn saman þar sem símasamband er lélegt eins og þarna er.

Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem birtist í dag. 

Engin vitni voru að slysinu en samstarfsmaður mannsins, sem lét vita af slysinu, kom að heflinum þar sem hann lá utan vegar. Hann var þá með blikkandi vinnuljós og bakkflautu í gangi. Hreyfill hefilsins var ekki í gangi. 

Rannsóknarnefndin telur að miðað við hjólför hefilsins hafi hefilstjórinn verið að bakka niður brekkuna þegar slysið varð. Líklegt sé að hreyfill hreyfilsins hafi óvænt drepið á sér vegna ofálags. Þegar slíkt gerist hætti hemlar að virka og hefillinn fríhjólar. „Veghefillinn hefur því líklegast runnið afturábak og hefilstjórinn ekki náð að stöðva farartækið,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Miðað við ummerki á vettvangi virðist sem hefilstjórinn hafi farið út um dyrnar vinstra megin en lent að hluta undir framhjóli hefilsins. Nefndin telur að hann hafi farið út til þess að reyna að forða sér áður en hefillinn lenti utan vegar. Hefillinn fór út af veginum í krappri beygju og valt á vinstri hlið.

Nefndin leggur til að að Vinnueftirlitið bæti inn í bóklega og verklega kennslu til vinnuvélaprófs að ítarlegar sé farið yfir virkni varakerfiðs fyrir hemla-og stýrisbúnað.  Þá þurfi hefilstjórar og stjórnendur annarra vinnuvéla að þjálfa  viðbrögð við óvæntum uppákomum við hættulegar aðstæður, svo sem hvernig hemla-og stýrisbúnaður hegðar sér ef skyndilega drepst á hreyfli tækis.

Nefndin gerir jafnframt athugasemdir við að enn séu staðir þar sem ekkert símasamband er og örðugt sé vegna mikils kostnaðar og tæknilegra erfiðleika að koma á sambandi.   Hún hvetur þá sem geta til að kynna sér tetra-tæknina og halda starfsfólki sínu  þjálfuðu og upplýstu. Þar sem slysið varð hafi símasamband verið lélegt og því mælist nefndin til þess að fyrirtæki og stofnanir hafi að lágmarki tvo starfsmenn við slíkar aðstæður.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi