Frumvarp í haust um að lækka laun forseta um helming

Mynd: Rúnar Snær Reynisson / Rúnar Snær Reynisson
Guðmundur Franklín Jónsson, forsetaframbjóðandi, segir að ef hann verður kjörinn muni hann eftir þingsetningu í haust leggja fram frumvarp í samvinnu við þingheim um að laun hans verði lækkuð um helming. Hann trúi ekki öðru en þingheimur vilji spara fyrir þjóðina. Rætt var við Guðmund Franklín í Speglinum

Sparlega með málskotsréttinn

Guðmundur Franklín hefur sagt að hann ætli að verða betri forseti en Guðni Th. Jóhannesson með málskotsréttinn að vopni. Hann segist alls ekki vera að boða átök ef hann verði kjörinn.

„Við vitum að forsetinn hefur málskotsréttinn í sínu vopnabúri samkvæmt stjórnarskránni og hann fer með löggjafarvaldið með Alþingi. Ef svo ber undir að það rís upp eitthvert mál sem er mjög umdeilt. Þá finnst mér að forsetinn eigi hiklaust að nýta sér málskotsréttinn, segir Guðmundur Franklín. Forsetinn sé kosinn af þjóðinni og hann eigi að vera öryggisventill þjóðarinnar fyrir ýmis mál eins og til dæmis þriðja orkupakkann sem kom upp á síðasta ári.

Hann segist ekki ætla að nýta sér málskotsréttinni í tíma og ótíma. Það verði að nota þetta vald sparlega. „Eingöngu í því tilfelli þegar myndast djúp gjá milli þings og þjóðar.“

Vill láta vita hvar ég stend

Guðmundur Franklín hefur að undanförnu lýst yfir ýmsu sem hann vill að gert verði í þjóðfélaginu. Meðal annars að gefa handfæraveiðar frjálsar, afnema verðtryggingu, hækka skattleysismörk og afnema skerðingar svo eitthvað sé nefnt. Spurður hvort þetta hljómi eins og hann ætli að stjórna landinu og hafi gleymt að hér er þingræði segir að þetta séu aðeins hans skoðanir. Hann vilji bara láta fólk vita hvar hann standi.

Vill nágast þjóðina meira en Guðni

Guðmundur Franklín vill efla forsetaembættið. En hvað á hann við með því?„Ég er að tala um að forsetinn hlusti meira á þjóðina. Hann nálgist þjóðina meira en núverandi forseti. Hann tali máli þjóðarinnar. Tali fyrir hana við þingheim þegar mál koma upp,“ segir Guðmundur Franklín.

Stefnir að frumvarpi um launin sín í haust

Guðmundur ætlar, verði hann kjörinn, að lækka laun sín um helming. Hann segist ætla að nýta 25. gr. stjórnarskrárinnar  sem kveður á um að  forseti lýðveldisins geti látið leggja fyrir Alþingi frumvörp.

„Ég myndi vilja virkja 25. greinina og setja lög um sjálft forsetaembættið og lækka laun forseta um 50%.“ Núna þegar  hremmingar ganga yfir þjóðfélagið þá eigi forsetinn að ganga fram með góðu fordæmi og lækka launin hjá sjálfum sér. „Ég er ekki að tala um að lækka launin hjá öðrum en mér finnst að fordæmið ætti sýna æðstu embættismönnum að gera slíkt hið sama.“

En hvernig leggur forseti fram frumvarp? Lagalegar skýringar á 25. greininni lúta að því að hún eigi við um stjórnarfrumvörp. Gangurinn er sá að fyrst eru frumvörp samþykkt í ríkisstjórn og svo er gerð tillaga um að forsetinn leggi frumvarpið fram á Alþingi. Eina aðkoma hans sé að skrifa undir. Í þessu ljósi lagði Ólafur Ragnar Grímsson fram Icesave- frumvörpin sem hann synjað svo síðar.

 „Þegar þingið verður sett í haust myndi ég leggja þetta fram sem frumvarp í samvinnu við þingheim. Ef hann vill ekki hlusta á mig þá myndi ég kannski ekki heldur hlusta á hann. Þannig að ég myndi bara reyna að koma þessu í gegn með samningum. Ég held að það sé mikill vilji hjá þingheimi að spara fyrir þjóðina sérstaklega á þessum tímum. Ég trúi ekki öðru,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi