FIFA hvetur til „almennrar skynsemi“ vegna Floyd

epa08456508 Jadon Sancho of Borussia Dortmund celebrates scoring the 0-2 goal with a 'Justice for George Floyd' shirt during the German Bundesliga soccer match between SC Paderborn 07 and Borussia Dortmund at Benteler Arena in Paderborn, Germany, 31 May 2020.  EPA-EFE/LARS BARON / POOL CONDITIONS - ATTENTION:  The DFL regulations prohibit any use of photographs as image sequences and/or quasi-video.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES EUROPE POOL

FIFA hvetur til „almennrar skynsemi“ vegna Floyd

02.06.2020 - 17:45
Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur hvatt knattspyrnusambönd í heiminum að beita almennri skynsemi og sveigjanleika þegar kemur að refsingu leikmanna vegna mótmæla þeirra eftir dauða George Floyd.

Floyd var myrtur af lögreglu í Minneapolis 25. maí síðastliðinn. Í kjölfarið hefur alda mótmæla farið um Bandaríkin þar sem krafa er gerð um að lögreglumennirnir sem urðu Floyd að bana séu sóttir til saka. Þrálátu ofbeldi lögreglu gegn svörum í Bandaríkjunum er mótmælt.

Fjölmargir íþróttamenn hafa sýnt mótmælendum vestanhafs samhug og sent skýr skilaboð til stuðnings baráttunni. Þar má nefna Naomi Osaka, Michael Jordan, Tiger Woods og Lewis Hamilton.

Fótboltamenn hafa einnig látið í sér heyra. Leikmenn Liverpool sýndu samstöðu á æfingu sinni í gær og þeir Weston McKennie, Jadon Sancho og Marcus Thuram komu allir skilaboðum á framfæri í þýsku úrvalsdeildinni um helgina.

Samkvæmt reglum FIFA eru pólitísk skilaboð ekki leyfileg í leik. Leikmenn geta bæði hlotið sektir og leikbönn séu þeir fundnir sekir um brot á þeim reglum. AP-fréttastofan hefur þó eftir talsmanni FIFA að túlkun laganna sé lögð í hendur hverrar deildar og knattspyrnusambands fyrir sig. Hvatt er til notkunar „almennrar skynsemi og tillits til samhengis atburðanna.“ FIFA hvetur því til sveigjanleika þegar kemur að refsingu leikmanna.

Hlaut aðeins aðvörun árið 2014

Bandaríkjamaðurinn McKennie sýndi skilaboðin „Justice for George“ eða „Réttlæti fyrir George“ á fyrirliðabandi sínu í tapi liðs hans Schalke fyrir Werder Bremen á laugardag. Sancho fékk gult spjald fyrir að fara úr treyju sinni eftir fyrsta mark sitt af þremur í 6-1 sigri Dortmund á Paderborn á sunnudag en hann bar sömu skilaboð réttlætis á bol undir treyjunni. Liðsfélagi hans Achraf Hakimi sýndi sömu skilaboð eftir að hafa skorað síðar í leiknum. Hann fékk þó ekki gult spjald þar sem hann lyfti treyjunni ekki upp fyrir höfuð. Thuram kraup þá á hné eftir annað marka sinna í 4-1 sigri liðs hans Gladbach á Union Berlín sama dag.

Árið 2014 komst í gegn alþjóðleg lagabreyting að frumkvæði enska knattspyrnusambandsins þar sem hvers kyns skilaboð á undirtreyjum leikmanna eru bönnuð.

Sama ár sýndi Nígeríumaðurinn Anthony Ujah, þáverandi leikmaður Köln í Þýskalandi, skilaboðin „I Can't Breathe“ eða „Ég get ekki andað“ eftir að Eric Garner var myrtur af lögreglu í Bandaríkjunum árið 2014. Hann hlaut aðeins aðvörun frá þýskum knattspyrnuyfirvöldum og var ekki refsað fyrir athæfið.

Þýska knattspyrnusambandið er nú með mál leikmannana fjögurra til skoðunar.

Enska deildin stendur með leikmönnum

Í kjölfar yfirlýsingar FIFA gaf enska knattspyrnusambandið, FA, grænt ljós á skilaboð leikmanna gegn mismunun á grundvelli kynþáttar.

„Ákveðin hegðun og bendingar geta verið brot á lögum leiksins en þurfa það þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig með almenna skynsemi að vopni auk þess að rýna í samhengi málsins,“ hefur AP eftir sambandinu.

„Kraftur fótboltans getur brotið niður múra í samfélaginu og við erum mjög fylgjandi því að fjarlægja hvers kyns mismunun úr leiknum sem við elskum,“ segir enn fremur í tilkynningu sambandsins.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Íþróttastjörnur láta í sér heyra vegna dauða Floyd

Fótbolti

Liverpool minntust George Floyd á æfingu

Íþróttir

„Okkur er nóg boðið“

Fótbolti

Sancho sendi skilaboð í stórsigri