Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfitt að stoppa utanvegaakstur

02.06.2020 - 22:15
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Erfiðlega gengur að sporna gegn utanvegaakstri segir eigandi ferðaþjónustufyrirtækis sem fer með ferðamenn eftir veginum norðan Leirvogsár. Fjölda torfæruhjóla og -bíla sé ekið utan vegar þó svo að settar hafi verið upp merkingar og grjóthnullungum raðað fyrir.

Svæðið frá Esjumelum og norður með Leirvogsá hefur löngum helst verið sótt af stangveiðimönnum og þeim sem þar búa, en umferðin um svæðið hefur aukist mikið og umgengnin versnað. Jón fer reglulega um svæðið með hópa ferðamanna á torfærubílum.

„Hérna erum við að horfa á það sem við erum að slást við allt sumarið þar sem enduro-hjól eða crossarar koma hérna inn úr og spóla upp svæðið. Þetta er tiltölulega nýtt. Þetta var ekki í fyrra. Það er farið hérna út fyrir veg og spólað. Þá eru ein för komin og þá fer bara næsti og næsti,“ segir Jón Bergsson, einn eigenda Buggy Adventures.

Til að reyna að sporna gegn þessu hefur Jón komið upp skiltum og látið hefla veginn.  

„En þessi COVID, hún tekur svolítið þungt í okkur og maður getur ekki fjárfest í að láta hefla veginn og valta hann eins og maður gerði síðasta ár og þarsíðasta ár,“ segir Jón.

Íbúi á svæðinu sagði í fréttum RÚV um helgina hann hefði aldrei séð jafnmiklar skemmdir vegna utanvegaaksturs.

„Þetta er slæmt. Ég stoppaði hér einn en hann var bara með hótanir, ekkert númer á hjólinu,“ segir Jón.

Jón segir sitt starfsfólk ekki aka utan vega. Hann hefur hlaðið grjóthnullungum meðfram veginum til að reyna að koma í veg fyrir að unnt sé að aka út af honum og á grasinu.

„Ég er búinn að hlaða upp grjóti meðfram kantinum til þess að varna því að bílarnir fari upp úr pollinum upp á grasið, því það er lenskan hjá Íslendingum: ef það er pollur, ekki skíta út bílinn, keyra á jörðinni þar sem vegurinn er ekki,“ segir Jón.

Ertu alltaf að taka sömu grjóthnullungana og setja aftur í kantinn?

„Stundum er það þannig. Þá þarf bara að tína þá aftur og setja á sinn stað þannig að þetta nái helst upp í botninn á bílnum þannig að fólk fer ekki yfir þetta,“ segir Jón.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV