Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Endurnýja dreifikerfið fyrir 1,6 milljarða á árinu

02.06.2020 - 12:01
RARIK ætlar að endurnýja dreifikerfi sitt fyrir 1,6 milljarða á árinu. Rúmlega 300 kílómetrar af raflínum verða lagðir í jörðu. Sex hundruð milljónir verða nýttar í verkefni sem hefur verið flýtt meðal annars vegna óveðursins í desember og brothættra byggða í Skaftárhreppi.

RARIK rekur stærsta dreifikerfi raforku á Íslandi og er háspennuhluti þess yfir 9.000 km að lengd. Í um 30 ár hefur loftlínum verið fækkað markvisst og jarðstrengir lagðir í staðinn, bæði til þess að auka rekstraröryggi og draga úr sjónmengun.

Óveðrið í desember sýndi greinilega mikilvægi þess að tryggja afhendingaröryggi. Þó um 65% dreifikerfisins séu komin í jörðu er enn langt í land. Stefnt er að því að allt kerfið verði komið í jörðu 2035. Að meðaltali eru endurnýjaðir um 200 kílómetrar á ári þannig að framkvæmdir RARIK verða öllu meiri í ár en venjulega. 

158 km eru verkefni sem var flýtt

Lagðir verða 302 km af af þriggja fasa jarðstrengjum. Stærstur hluti þeirra er á Norðurlandi, um 130 km. Af þeim eru 148 km hluti af áður samþykktri áætlun RARIK.

Sérstakt flýtiverkefni felur í sér endurnýjum á 85 kílómetra löngum línum á Norðurlandi vegna afleiðinga óveðursins í desember og 73 km eru sérstök flýtiverkefni á vegum ríkisstjórnarinnar. Stærsti hluti þess, 52 km, eru vegna brothættra byggða í Skaftárhreppi. 

600 milljónir í flýtiverkefni

Kostnaður við endurnýjun raflína er áætlaður um 1,6 milljarðar króna. Af þeim eru um 600 milljónir vegna verkefna sem var flýtt. Um 230 milljónir fara í flýtiverkefni RARIK á Norðurlandi og 220 milljónir eru á vegum ríkisstjórnarinnar til framkvæmda í Meðallandi.

Verkefnum fyrir 150 milljónir króna verður flýtt vegna átaks til atvinnusköpunar á vegum stjórnvalda sem greiða 50 milljónir króna af þeirri upphæð. Þær framkvæmdir verða í Dalabyggð, Rangárvallasýslu og við Seyðisfjörð.