Elísabet í veikindaleyfi vegna veirusjúkdóms

Mynd með færslu
 Mynd: fotbollsgalan - RÚV

Elísabet í veikindaleyfi vegna veirusjúkdóms

02.06.2020 - 19:00
Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad í Svíþjóð, getur ekki þjálfað liðið vegna veikinda. Hún mun taka sér ótímabundið hlé frá þjálfun vegna veirusjúkdóms sem er að hrjá hana.

Í samtali við staðarblaðið Kristiandstadsbladet segist Elísabet ekki hafa getað þjálfað að undanförnu og að sjúkdómurinn sé erfiður við að eiga. Um er að ræða veirusjúkdóminn ristil (e. shingles) sem í einhverjum tilfellum, líkt og Elísabetar, ræðst á taugakerfið.

„Þetta er eitthvað sem getur varað til lengri tíma. Þetta hefur áhrif á taugakerfið og það er ekki gott að fá þetta í höfuðið. Þetta er mjög sársaukafullt. Ég hef ekki getað þjálfað neitt og ég veit ekki hversu lengi þetta varir,“ hefur Kristianstadbladet eftir Elísabetu.

„Ég get farið út en ég veit aldrei hvernig mér líður frá einum degi til þess næsta. Ég get jafnað mig á þessu á einum mánuði og þetta gæti dregist í marga mánuði. Þetta er furðuleg staða, en ég er heppin að þetta komi upp áður en mótið hefst,“ segir Elísabet en sænska deildin hefur göngu sína helgina 27.-28. júní.

„Við erum með sterkan hóp af leiðtogum og þjálfurum og ég held að þetta hafi ekki áhrif á leikmennina,“ segir Elísabet jafnframt en þau Johanna Rasmussen og Björn Sigurbjörnsson, aðstoðarþjálfarar Kristianstad, munu stýra liðinu á meðan hún er í veikindaleyfi.

Elísabet hefur stýrt Kristianstad frá árinu 2009 og er tímabilið sem fram undan er það tólfta undir hennar stjórn. Landsliðskonurnar Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir leika með liðinu en sú fyrrnefnda verður frá fram yfir áramót vegna barneigna. 

Keppni átti að hefjast í deildinni í apríl en var frestað vegna útbreiðslu COVID-19. Kristianstad heimsækir Gautaborg í fyrsta leik tímabilsins 28. júní næst komandi.