Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

COVID-19 veldur auknu álagi á sprengjusérfræðinga

02.06.2020 - 20:03
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið auknu álagi á sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar. Ferðaþyrstir landsmenn hafa gengið fram á óvenjumargar sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni.

Þó svo að herinn sé löngu farinn af landi brott hefur hann skilið eftir sig helling af minjum.

„Það sem við höfum orðið varir við núna í vor er hærri tíðni þess að fólk finni hernaðargögn úti í náttúrunni sem er yfirleitt ekki fyrr en líður á sumarið. Þetta náttúrulega tengist því að fólk er meira að ferðast innanlands,“ segir Ásgeir Guðjónsson, sprengjusérfræðingur hjá Landhelgisgæslunni.

„Þessar fallbyssukúlur og sprengjur hér sem eru í náttúrunni eru úr stáli og hafa legið hér í allt að sjötíu ár og er þar af leiðandi orðið hættulegt af því að tíminn sjálfur er búinn að gera efnið óstöðugt,“ segir Ásgeir.

Fyrir nokkrum dögum fóru sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar á Patterson-svæðið í Reykjanesbæ til að eyða fallbyssukúlu. Hún var sprengd. 

Tilkynnt hefur verið um fimmtán sprengjur það sem af er ári. Yfirleitt berast fimmtíu tilkynningar á sumri og þær fyrstu ekki fyrr en í júlí. Ásgeir biður fólk að fara varlega og taka ekki upp og handleika sprengjur.

„Við viljum að fólk taki mynd á staðnum og heyri beint í lögreglu, hringi í lögreglu og tilkynni. Þeir koma þessu í réttan farveg þannig að við getum brugðist strax við meðan fólkið er enn þá á staðnum, þ.e.a.s. ef það er símasamband á staðnum,“ segir Ásgeir.

Nokkrir tugir þúsunda hermanna voru hér og í öllum landshlutum.

Hafið þið einhverja hugmynd um hvað það eru margar svona sprengjur hérna í jörðinni?

„Nei, en við vitum bara ef þú ert með nokkur þúsund manns sem þurfa að æfa þá telur það örugglega á einhverjum þúsundum eða hundruð þúsunda jafnvel,“ segir Ásgeir.

En sprengjurnar eru ekki bara á landi heldur einnig í sjónum umhverfis landið. Landhelgisgæslan hefur þurft að eyða þó nokkrum tundurduflum.