Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bandaríkjaforseti ausinn skömmum

02.06.2020 - 04:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Hillary Clinton fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og frambjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum 2016 húskammaði Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr í kvöld.

Hún fullyrðir að hann hafi fyrirskipað lögreglumönnum að rýma Lafayette-garð af mótmælendum áður en hann gekk þar í gegn að loknu ávarpi sínu til þjóðarinnar. Þar var hann ljósmyndaður með Biblíu í hönd fyrir framan Jóhannesarkirkjuna, sem stundum er nefnd kirkja forsetanna.

Hillary Clinton segir forsetann hafa misnotað vald sitt hroðalega og hann hafi níðst á bandarískum borgurum til þess eins að hægt væri að taka af honum myndir.

Kosningabaráttan virðist hafin í brimsköflum mestu óeirða í Bandaríkjunum um langa hríð því Clinton hvatti kjósendur til að taka afstöðu og mæta á kjörstað í komandi forsetakosningum.

Joe Biden samflokksmaður hennar og forsetaframbjóðandi tók undir orð hennar. Hann ávítaði forsetann harðlega fyrir að ætla sér að nýta bandarískt herlið gegn bandarísku þjóðinni og lýsti því yfir að sigrast þyrfti á forsetanum í kosningunum í haust.

Biden boðaði jafnframt að hann myndi flytja ræðu í Fíladelfíu í dag um upplausnarástandið í landinu.

Marian Budde, æðsti maður biskupakirkjunnar í Washington, kvaðst í viðtali við CNN, vera forsetanum ævareið vegna þess að hann hefði ekki beðið um leyfi til að heimsækja kirkjuna.

Henni líkaði heldur ekki að hann hefði haldið á Biblíu án þess að biðjast fyrir auk þess sem svo væri að sjá að hann áttaði sig ekki á hræðilegri líðan þjóðarinnar.

Biskupinn, líkt og Clinton og Biden, telur að of langt hafi verið gengið við að koma mótmælendum burt úr Lafayette-garði.

Ekki er að sjá að forsetinn kippi sér upp við aðfinnslur af þessu tagi, hann hefur ekki brugðist við þeim enn sem komið er.

Í nýjustu færslu hans á Twitter segir hann æðstu skyldu sína vera að vernda bandarísku þjóðina og fara að lögum - og það muni hann gera.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV