Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skemmdir vegna utanvegaaksturs komu á óvart

01.06.2020 - 19:37
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það kom starfsfólki Reykjavíkurborgar á óvart að sjá í fréttum hversu miklar skemmdir hafa orðið á landi borgarinnar norðan Leirvogsár. Deildarstjóri segir að stefnt sé að því að skoða svæðið og ráðast í úrbætur.

Vegurinn frá Esjumelum meðfram Leirvogsá að norðanverðu er tæplega fær fólksbílum. Hann er holóttur og fer á nokkrum stöðum út í ána. Hann er þó jeppafær. Víða má sjá áberandi ummerki utanvegaaksturs meðfram veginum. Þá hefur verið ekið upp um holt og hæðir og eftir árbakkanum þannig að hann er sums staðar orðinn eitt drullusvað. Íbúi á Kjalarnesi sagði í fréttum RÚV í gær að hann hefði aldrei séð jafn miklar skemmdir á þessu svæði vegna utanvegaaksturs.

Hvað finnst þér um að meðferðin sé svona á borgarlandinu á Kjalarnesi?

„Þetta lítur náttúrulega ekki vel út eins og sást á myndunum ykkar. En við höfðum ekkert áttað okkur á að þetta væri svona slæmt,“ segir Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg.

Þó svo að borgin eigi land á svæðinu er engin starfsemi þar á vegum borgarinnar og því eiga starfsmenn ekki leið þarna um.

„Það getur alveg komið til mála að þarna verði ræktaður skógur eða eitthvað slíkt. Þetta er náttúrulega framtíðar útivistarsvæði borgarinnar,“ segir Þórólfur.

Þegar fréttastofa fór með Leirvogsá í síðustu viku mætti hún hópi af torfærubílum frá ferðaþjónustufyrirtæki. Þar fara líka um veiðimenn og annað útivistarfólk. 

Ætlið þið að grípa til einhverra aðgerða?

„Ég geri ráð fyrir að þegar við fáum ráðrúm til þá förum við og skoðum þetta og metum hvað er skynsamlegt að gera og heyra í þessum ferðaþjónustuaðila, hvernig hann sér þetta og svona koma einhverju skikki á þetta. Ég held að við hljótum að gera það,“ segir Þórólfur.

Hann telur að einkum sé ekið utan vegar af því að vegurinn sé slæmur.

„Veginum hefur ekki verið haldið við í lengri tíma,“ segir Þórólfur.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd er bannað að aka utan vega. Þórólfur býst þó ekki við að málið verði kært til lögreglu.

„Nei, þetta er ekki þess eðlis finnst mér,“ segir Þórólfur.

Stungið hefur verið upp á að Skógræktarfélag Reykjavíkur verði fengið til að hlúa að svæðinu, og segir Þórólfur það ágætis hugmynd.