Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Samsæriskenning um CIA og Scorpions skekur heiminn

Mynd: aresauburn™ / https://www.flickr.com/photos/ar

Samsæriskenning um CIA og Scorpions skekur heiminn

01.06.2020 - 08:35

Höfundar

Stóð bandaríska leyniþjónustan CIA á bak við kraftballöðuna Wind of Change með vesturþýsku rokksveitinni Scorpions, sem naut mikilla vinsælda í heiminum um það leyti sem Sovétríkin liðuðust í sundur? Þessi kenning er rannsökuð í hlaðvarpsþáttaröðinni Wind of change eftir bandaríska rannsóknarblaðamanninn Patrick Keefe sem skrifar fyrir The New Yorker.

Þættirnir hafa notið nokkurra vinsælda að undanförnu víða um heim. Freyr Eyjólfsson, samskiptastjóri Terra, er einn þeirra sem hefur heillast af sagnamennsku hlaðvarpsins: „Þetta er svona hlaðvarp þar sem útvarp verður list,“ segir Freyr í viðtali við Lestina á Rás 1.

„Hann er með góðan heimildarmann í byrjun. Þetta er félagi hans sem hefur mikið tengslanet út um allt, maður sem hann hefur treyst í gegnum tíðina og reitt sig á í rannsóknarblaðamennsku. Hann fullyrðir að þetta lag sé samið af CIA, og í gegnum hann fær hann samband við alls konar fólk, bæði fyrrverandi njósnara, fyrrverandi starfsmenn CIA og menn sem tengjast Scorpions og öllu sem tengist þessu lagi,“ segir Freyr. 

Haldbærar sannanir eru kannski af skornum skammti en blaðamaðurinn Keefe rekur alla mögulega og ómögulega þræði. Nóg er af furðulegum og forvitnilegum tilviljunum sem hægt er að nota til að byggja upp samsæriskenninguna. Á Youtube er leikfangasmiður sem ýjar að því að Scorpions hafi verið spæjarar fyrir CIA. Söngvarinn Klaus Meine viðurkennir að hafa hitt starfsmann CIA á hóteli og flautað fyrir hann laglínu Wind of Change - reyndar löngu eftir að lagið kom út. Og umboðsmaður sveitarinnar, skrautlegur karakter að nafni Doc McGee, var fyrrum dópsmyglari og eini þátttakandinn í umfangsmiklu smyglmáli sem slapp við fangelsisvist. Skömmu síðar var hann byrjaður að halda rokkhátíð með Scorpions og fleirum í Sovétríkjunum. Blaðamaðurinn veltir fyrir sér hvort hér hafi verið gerður samningur við CIA.

Studdu jazz og abstrakt expressjónisma

Til að þess að styðja þessa ósönnuðu og frekar langsóttu kenningu vitna þáttagerðarmenn í söguna og taka þó nokkur staðfest dæmi um hvernig bandaríska leyniþjónustan hafði puttana í listalífinu meðan á kalda stríðinu stóð, skipulagði viðburði og studdi verkefni með það fyrir augum að breiða út bandarísk gildi, grafa undan hugmyndafræði kommúnisma og samstöðu meðal stuðningsmanna Sovétríkjanna. Í þáttunum eru tekin dæmi um hvernig Louis Armstrong var sendur um heiminn sem eins konar menningarlegur sendiherra Bandaríkjanna - hlutverk sem honum var reyndar illa við - og Nina Simone spilaði í Afríku á tónleikum sem CIA skipulagði, án þess reyndar að hún vissi um tenginguna. Leyniþjónustan var með góð tengsl inn í kvikmyndaheiminn og notfærði sér meðal annars kvikmyndagerðarmenn í aðgerðum sínum. Ein slík saga er sögð í Óskarsverðlaunakvikmyndinni Argo frá 2012, en hún fjallar um leyniþjónustumenn sem dulbjuggust með hjálp kvikmyndagerðarmanna til að bjarga gíslum í Íran.

CIA tók enn fremur þátt í að dreifa skáldsögunni Doktor Zhivago í Sovétríkjunum, en hún hafði verið bönnuð austantjalds vegna gagnrýninna viðhorfa í garð yfirvalda. Þá hefur komið í ljós að leyniþjónustan studdi meðal annars duglega við breska listatímaritið Encounter sem var einn helsti málsvari abstrakt expressjónisma í myndlist.

Mynd: Forlagið / Forlagið
Viðtal við Hauk Ingvarsson um áhrif CIA í íslensku menningarlífi

CIA og íslensk menning

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og bókmenntafræðingur, en hann hefur rannsakað hvernig bandarísk stjórnvöld beittu áhrifum sínum í íslensku menningarlífi. Í grein í nýjasta hefti Sögu - tímarits sögufélagsins rekur hann til að mynda hvernig bandaríska stríðsupplýsingaskrifstofan notaði listvettvanginn til að bæta ímynd Bandaríkjanna á stríðsárunum.

Þá var til að mynda  staðið fyrir myndlistarsýningu í Listamannaskálanum þar sem bandarísk nútímamyndlist var sýnd og í sýningarskrá voru Bandaríkin máluð upp sem verndari frjálsa frjálsrar listiðkunar - andstætt við alræðisríki fasisma og stalínisma. Hugrenningatengsl voru sköpuð milli frjálsrar listar og lýðræðis, fjölmenningar og frelsis sem áttu eftir að verða áberandi í áróðursstríði Bandaríkjanna á menningarsviðinu.

En þegar menningarlega kaldastríðið harðnaði á sjötta áratugnum voru tengsl milli samtakanna Congress for Cultural Freedom, sem voru nátengd leyniþjónustunni, og íslenskra menntamanna á hægri væng stjórnmálanna. „En það merkir ekki að þeir hafi verið meðvitaðir um samtökunum hafi verið stjórnað af CIA. Þarna eru íslenskir hægrimenn bara í alþjóðlegu samstarfi, það eru skoðanaskipti og það er ákveðið aðhald, það er verið að hvetja þá áfram í því sem þeir eru að gera og beina þeim í ákveðnar áttir,“ segir Haukur.