Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ónotaðar skurðstofur valda húsnæðisskorti á HSS

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) skortir húsnæði þrátt fyrir að fimmtán hundruð fermetrar standi ónotaðir. Skurðstofur þar hafa staðið meira og minna ónotaðar í áratug. Á meðan er slysa- og bráðamóttaka og heilsugæslan rekin í afar þröngum húsakynnum. Stjórnvöld ætla að verja tvö hundruð milljónum svo unnt sé að breyta húsnæðinu svo það nýtist. 

Elsti hluti Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja var tekinn í notkun fyrir tæpum sjötíu árum. Það hefur tvívegis verið byggt við hana og heilsugæslan var opnuð fyrir hátt í fjörutíu árum.

„Þjónustan hefur aukist gríðarlega undanfarin ár vegna þess að íbúafjölgun hefur orðið mikil. En það er svona takmarkandi fyrir því hvað við getum því við höfum bara ekki pláss til þess að efla þjónustuna enn frekar. Ef við óskum eftir að ráða fólk, hjúkrunarfræðinga, næringarráðgjafa eða lækni þá erum við í vandræðum með það hvar við eigum að koma fólkinu fyrir. Árið 2002 voru 16 þúsund sem bjuggu á Suðurnesjum og núna í dag 28 þúsund. Stöðin hefur ekkert stækkað síðan 2002, í 18 ár,“ segir Sveinbjörg Sigríður Ólafsdóttir, deildarstjóri á hjúkrunarmóttöku á HSS.

Slysa- og bráðamóttakan er á hundrað fermetrum í elsta hluta hússins við hliðina á matsalnum og rétt hjá herbergi starfsmanna. Í því herbergi er vinnuaðstaða starfsfólk, lyfjaherbergi, kaffistofa og hvíldaraðstaða fyrir þá sem ganga næturvaktir.

Mikil þrengsli eru á slysa- og bráðamóttökunni. „Þetta er rosalega þröngur kostur og maður finnur fyrir því þegar maður þarf að færa sjúklinga og skjólstæðinga hérna til að það er erfitt. Það komast bara fyrir fimm einstaklingar hérna í einu en þörfin er mun meiri og hefur sýnt sig enda erum við oft með allt fullt hjá okkur,“ segir Ásta Bjarnadóttir deildarstjóri á slysa- og bráðamóttöku HSS

Móttaka fyrir sjúkrabíla er utan dyra, í beinni sjónlínu við innganginn að heilsugæslustöðinni. 

„Sjúkrabíllinn kemur hérna. Það er ekkert port fyrir hann eða slíkt þannig að fólk er svolítið berskjaldað,“ segir Ásta. 

„HSS rekur heilbrigðisþjónustu fyrir átta prósent þjóðarinnar hvorki meira né minna,“ segir Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS.

Það skýtur skökku við að þrengslin séu svona mikil þegar nýjasta álman er nánast ekkert notuð. 

„Það eru um fimmtán hundruð fermetrar þegar allt er talið. Þannig að við sjáum fyrir okkur gríðarlega vaxtarmöguleika hérna innanhúss,“ segir Markús.

Slysa- og bráðamóttakan verður færð í nýju álmuna í þrefalt stærra húsnæði. Á þriðju hæðinni eru skurðstofur en þeim var lokað vegna niðurskurðar.

„Það var opnað 2008 en svo lokað stuttu síðar 2010,“ segir Alma María Rögnvaldsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á HSS.

Stjórnvöld ætla að reiða fram tvö hundruð milljónir króna til breytinga á húsnæðinu og telur Alma ekki vanþörf á.

„Ég var sjálf hálfsjokkeruð þegar ég kom hérna inn fyrst að sjá hvernig aðstaðan var eftir að ég var búin að vinna á heilsugæslunni í Reykjavík í 20 ár. Þetta er fyrir neðan allar hellur,“ segir Alma.