Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Miklar skemmdir á landi vegna utanvegaaksturs

01.06.2020 - 09:03
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Miklar skemmdir hafa orðið á landi norðan Leirvogsár vegna aksturs utan vega. Íbúi á svæðinur segist aldrei hafa séð ástandið jafnslæmt og nú. Afar brýnt sé að spornað verði við frekari skemmdum fyrir sumarið.

Vegurinn frá Esjumelum og upp með Leirvogsá að norðanverðu er nokkuð fjölbreyttur. Aka þarf á nokkrum stöðum út í ána. Vegurinn er orðinn lúinn og holóttur af akstri og veðri.

„Þetta er gömul þjóðleið héðan frá Reykjavík og norður í land í gegnum Svínaskarð,“ segir Reynir Kristinsson, íbúi á svæðinu.

Svæðið nýtur vaxandi vinsælda til útivistar. 

Sumst staðar liggur vegurinn yfir Leirvogsána. Á köflum má sjá djúp för eftir utanvegaakstur á árbökkunum sem hafa breyst í drullusvað.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

„Þetta bara veðst upp. Menn koma hér snemma vors þegar það er snjór kannski yfir veginum og þá er bara farið hér utan vegar. Síðan eru ferðaþjónustuaðilar að nota þetta svæði líka, bjóða upp á ferðir hér, ævintýraferðir og skil þetta svo sem vel. Það er ævintýralegt að koma hérna en landið þolir þetta engan veginn. Ég held að ef þetta væri uppi á hálendi sem utanvegaakstur þá held ég að menn myndu örugglega skilgreina þetta sem miklar skemmdir. En það verður að grípa inn í núna ef það á ekki að fara verulega illa. Á svona síðustu 2, 3, 4 árum hefur þetta bara sótt í verra og ég hef aldrei séð þetta svona slæmt eins og núna. Það verður eiginlega að stoppa þetta núna fyrir sumarið þessa eyðileggingu, því þetta verður ekkert endurbætt síðar. Ég held að það sé alveg augljóst,“ segir Reynir.

Landið er í eigu Reykjavíkurborgar. Reynir lagði til við íbúaráð Kjalarness að hlúð yrði að svæðinu og þar hafin skógrækt. Íbúaráðið óskaði eftir því að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði athugun á umgengi og legði til úrbætur.