
Frú Ragnheiður komin til Suðurnesja
Bíllinn er á ferðinni á Suðurnesjum á mánudögum og fimmtudögum frá klukkan 18:30 til 21:00. Í færslu á Facebook-síðu verkefnisins segir að hann stoppi ekki á ákveðnum stöðum, heldur komi sjálfboðaliðarnir á þann stað þar sem fólk treystir sér til að hitta þá. Síminn er 783-4747 og er því sérstaklega beint til fólks í Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum, sem vill nýta sér þjónustuna, að hafa samband snemma dags. Það auðveldi skipulag ferðanna um Suðurnesin.
Í fyrra leituðu 514 einstaklingar til Frú Ragnheiðar á höfuðborgarsvæðinu og eru það eru um 20 prósent fleiri en árið á undan. Heimsóknir voru í heildina 4.149 talsins. Stöðug aukning hefur verið til Frú Ragnheiðar og frá árinu 2015 hefur heimsóknarfjöldinn fjórfaldast, að því er segir á Facebook-síðu verkefnisins. Af þeim 422 skjólstæðingum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra, sem gáfu upplýsingar um búsetu, voru 61 prósent heimilslaus.